Íslenski boltinn

Pepsi Max-spáin 2019: Komið að skuldadögum í Krikanum

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Tómas Þór Þórðarson og Óskar Ófeigur Jónsson skrifa
FH-ingar ætla sér stærri hluti í sumar. vísir/vilhelm
Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports telur niður í Pepsi-deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Íslandsmótið hefst 26. apríl en Valsmenn eiga titil að verja eftir að hafa orðið meistarar annað árið í röð í fyrra og það í 22. sinn í sögu félagsins.Íþróttadeild spáir FH 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar og þar með titilbaráttu en þar vilja FH-ingar vera. Eftir að enda samfleytt í öðru hvoru af efstu tveimur sætum deildarinnar frá 2003-2016 endaði liðið í þriðja sæti 2017 sem varð banabiti Heimis Guðjónssonar hjá félaginu en í fyrra endaði liðið í fimmta sæti þrátt fyrir að ná í tveimur stigum meira en árið á undan.FH-inga hafa aðeins breytt liðinu frá því í fyrra og fengið inn bæði einn stærsta bitann á markaðnum sem og menn með hjarta og sál fyrir FH inn í klefann sem mönnum fannst vanta í Krikann á síðustu leiktíð. Mikil pressa er á Hafnafjarðarfélaginu að rétta skútuna eftir tvö mögur ár en FH hefur sett viðmiðið ansi hátt fyrir félagið.Þjálfari FH er Ólafur Kristjánsson en hann tók við uppeldisfélaginu fyrir síðustu leiktíð og bætti vissulega stigafjölda ársins á undan en kom liðinu ekki í Evrópu. FH verður því í fyrsta sinn í 16 ár ekki í Evrópukeppni. Ólafur horfði upp á stemninguna minnka fyrir liðinu en hann þarf að vinna fólkið aftur á band liðsins með betri spilamennsku og meiri árangri.

Baksýnisspegillinn

FH-liðið átti í miklu basli með að verjast föstum leikatriðum og var að tapa stigum á móti liðum sem það hefði annars átt að vinna nokkuð auðveldlega. Í fyrra fékk FH á sig þrettán mörk úr föstum leikatriðum sem var það þriðja mesta í deildinni ásamt Víkingi og Fylki.Lánlausir Keflvíkingar nýttu sér til dæmis dapra varnarvinnu FH-inga í eigin vítateig og tryggðu sér eitt af fimm stigum sínum allt sumarið í Kaplakrika með marki úr föstu leikatriði.

Liðið og leikmenn
grafík/gvendur
Eins og undanfarin ár er valinn maður í hverri stöðu hjá FH, allt frá markverði til fremsta manns. Sumir þurfa þó að gera mun betur en á síðustu leiktíð eins og Gunnar Nielsen, Hjörtur Logi Valgarðsson og Kristinn Steindórsson sem hefur ekki skorað mark í meistaraflokki í fimm ár. Nóg er svo af mannskap til að fylla í skörðin fyrir þá sem ekki eru að standa sig en klárt er að þetta lið getur unnið mótið ef hlutirnir fara að smella.HryggjarstykkiðPétur Viðarsson (f. 1987): Fáir leikmenn í deildinni eru í jafnmiklum metum hjá eigin liðsfélögum eins og Pétur Viðarsson sem sjaldan er talað mikið um en er alltaf hluti af meistaraliðum FH. Þessi grjótharði miðvörður ber allt í brjósti sem FH stendur fyrir og er einhver allra mikilvægasti leikmaður liðsins jafnt innan sem utan vallar. Varnarmenn koma og fara í FH-liðinu en Pétur er alltaf til staðar.Björn Daníel Sverrisson (f. 1990): Þegar að Björn Daníel yfirgaf Pepsi-deildina fór hann sem besti leikmaður Íslandsmótsins og FH-ingar vonast eftir því að fá sama Björn Daníel heim úr atvinnumennsku. Hann var að spila vel úti þegar að hann fékk tækifæri og segist ekki vera kominn heim til þess að slaka á. Hann er í betra formi en áður og ætlar sér stóra hluti með uppeldisfélaginu.Steven Lennon (f. 1988): Skotinn er að hefja sitt sjötta tímabil með FH en hann hefur verið einn albesti leikmaður deildarinnar undanfarin ár en aldrei náð að stíga skrefið og vera óumdeilanlega sá besti þrátt fyrir að hæfileikarnir séu til staðar. Hann gerði sitt er varðaði markaskorun í fyrra og setti níu mörk en ætli FH sér þann stóra í sumar þarf hann að halda áfram á sömu braut og jafnvel bæta í.

Markaðurinn
grafík/gvendur
Vetrarmarkaðurinn hjá FH snerist að mörgu leyti meira um að grisja hópinn en Ólafur Kristjánsson kallaði liðið sitt sjálfur bútasaumsteppi enda komu leikmenn héðan og þaðan alveg fram að móti. Þrátt fyrir að allir væru þeir hæfileikaríkir fann Ólafur sitt lið ekki fyrr en alltof seint.Stóru kaupin voru auðvitað að fá Björn Daníel heim og gera við hann langan samning. Þar er maður sem er að koma heim á fínum aldri og auðvelt er að byggja í kringum. Til viðbótar náðu FH-ingar svo í tvo öfluga miðverði sem hafa áður gert það gott hjá liðinu en meira var það nú ekki og þurfti í raun ekkert mikið meira.FH-ingar losuðu sig við fjóra erlenda leikmenn og þá fór Viðar Ari aftur til baka eftir lán og Atli Viðar Björnsson, sem að skoraði ekki mark síðustu tvö árin sín í efstu deild, lagði skóna á hilluna. Þrátt fyrir að FH hafði hægt um sig þegar kom að því að sækja menn lítur markaðurinn bara vel út og hópurinn sömuleiðis eftir skynsamlegan vetur.Markaðseinkunn: B

Hvað segir sérfræðingurinn?
„Mér finnst vera góður bragur á FH-liðinu í aðdraganda mótsins og liðið virðist vera á betri stað en á sama tíma í fyrra,“ segir Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur Pepsi Max-markanna á Stöð 2 Sport.„FH-liðið er í betra líkamlegu formi og lykilmenn líta vel út. Mér fannst FH gera vel á leikmannamarkaðnum og vil ég nefna sérstaklega Björn Daníel Sverrisson sem ég held að verði algjör lykilmaður þarna.“„Ég hef trú á að frammistaða Björns Daníels eigi eftir að hafa stór áhrif á FH í sumar. Mér finnst líka eins og menn viti að þeir skuldi pínulítið og vilji gera betur en í fyrra,“ segir Atli Viðar Björnsson.

Í ljósi sögunnar
grafík/gvendur
FH-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn átta sinnum og hafa allir titlarnir komið á síðustu fimmtán árum. Valur kemur næst í titlum frá árinu 2004 en eru hins vegar með fimm færri. FH hefur á sama tíma unnið báða bikarmeistaratitla sína en þeir komu í hús 2007 og 2010.Atli Viðar Björnsson á leikjamet FH í efstu deild en hann spilaði sinn 264. og síðasta leik með FH síðasta sumar. Atli Guðnason er aðeins sjö leikjum á eftir nafna sínum og er líklegur til að taka metið í sumar. Atli Viðar er sá sem hefur spilað flesta leiki fyrir eitt lið á Íslandi og nafni hans getur því tekið tvö met.Atli Viðar Björnsson er einnig markahæsti leikmaður FH í efstu deild og hann er ekkert að fara missa það met á næstunni. Atli Viðar skoraði 113 mörk fyrir FH í úrvalsdeildinni eða 29 mörkum meiri en næsti maður sem er Hörður Magnússon.Atli Guðnason hefur aftur á móti gefið langflestar stoðsendingar fyrir FH í efstu deild og er sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar fyrir eitt félag síðan farið var að tæka þær saman sumarið 1992. Atli Guðnason er kominn með 82 stoðsendingar en næstur hjá FH er Ólafur Páll Snorrason með 55.Vinsælasta sæti FH-inga í nútímafótbolta (1977-2018) er annað sætið sem liðið hefur lent í níu sinnum, síðast tvö ár í röð frá 2013 til 2014 og frá 2010 til 2011.

Goðsögn sem gæti nýst liðinu í sumar
FH skoraði aðeins 36 mörk í fyrra sem var töluvert frá liðum eins og Val og Stjörnunni og einnig minna en Breiðablik sem treysti meira á varnarleikinn. Samt átti FH flestar lykilsendingar á tímabilinu, þriðju flestu fyrirgjafirnar inn á teiginn og flestar hornspyrnur svo dæmi séu tekin.Sóknarleikurinn í heildina var ágætur en mönnum tókst bara ekki að koma boltanum í netið. Einn maður fékk snemma svarta beltið í því að skora mörk í Kaplakrika og það var Hörður Magnússon. FH sárvantar framherja sem skýtur bara þegar að hann sér markið og er í áskrift að markaskóm hvort sem þeir eru úr gulli eða silfri.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.