Erlent

Spánverjar ganga til kosninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá síðasta kosningafundi Sósíalistaflokks Pedro Sánchez á föstudag.
Frá síðasta kosningafundi Sósíalistaflokks Pedro Sánchez á föstudag. Vísir/EPA

Kjörstaðir í þingkosningunum á Spáni opnuðu í morgun. Nær öruggt er að enginn flokkur nái hreinum meirihluta og líkur eru á því að stjórnarmyndun eftir kosningar verði erfið enda hefur önnur eins sundrung ekki sést í spænskum stjórnmálum á síðari árum.

Fimm flokkar berjast um að komast í ríkisstjórn. Á vinstri vængnum sækjast Sósíalistaflokkur Pedro Sánchez, forsætisráðherra, og Við getum eftir því að mynda ríkisstjórn saman. Á hægri vængnum gætu Lýðflokkurinn og Borgararnir tekið höndum saman við hægriöfgaflokkinn Vox sem verður sá fyrsti til að ná fleiri en einu þingsæti á spænska þinginu eftir að lýðræði var komið aftur á þar á 8. áratugnum.

Kosningarnar hófust klukkan níu að spænskum tíma í morgun, klukkan sjö að íslenskum tíma. Kjörstöðum lokar á meginlandinu klukkan átta í kvöld að spænskum tíma, klukkan sex á íslenskum tíma.

Skoðanakönnun verður birt um leið og kjörstöðum lokar og búist er við að úrslit byrji að streyma inn eftir því sem líður á kvöldið. Talningu atkvæða ætti að vera lokið að mestu leyti á miðnætti að spænskum tíma, klukkan tíu að íslenskum tíma. Reuters-fréttastofan bendir á að í síðustu tveimur kosningum hafi útgöngukannanir ekki gefið rétta mynd af endanlegum úrslitum þeirra.

Þetta er í þriðja skipti á fjórum árum sem Spánverjar kjósa til þings. Glundroði hefur ríkt í stjórnmálalífi landsins, bæði vegna eins stærsta spillingarmáls í sögu Spánar sem skók Lýðflokkinn og sjálfstæðisbaráttu Katalóna.

Sánchez tók við sem forsætisráðherra í fyrra eftir að ríkisstjórn Mariano Rajoy úr Lýðflokknum sem felld með vantrauststillögu í þinginu. Leiðtogi sósíalista boðaði til skyndikosninga í febrúar þegar honum tókst ekki að koma fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar sinnar í gegnum þinginu. Ástæðan var sú að katalónskir sjálfstæðissinnar á spænska þinginu neituðu að styðja frumvarpið eftir að Sánchez neitaði að fallast á bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði sjálfstjórnarhéraðsins.


Tengdar fréttir

Spáir stöðugleika framundan á Spáni

Kosningar fara fram á Spáni á sunnudag. Prófessor í stjórnmálafræði telur að loksins komist stöðugleiki á eftir mörg ár af efnahagslegum og stjórnmálalegum óstöðugleika.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.