Enski boltinn

Ef lokaleikir City og Liverpool fara eins og í fyrri umferðinni þá verður Liverpool meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Robertson fagnar marki Liverpool á móti Manchester City fyrr í vetur.
Andrew Robertson fagnar marki Liverpool á móti Manchester City fyrr í vetur. Getty/Simon Stacpoole
Manchester City og Liverpool eru bæði búin að með fyrri leik sinn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og geta því farið að einbeita sér aftur að toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Þar er spennan mjög mikil þar sem þessi tvö yfirburðarlið ensku úrvalsdeildarinnar á þessari leiktíð hafa skipts á að taka toppsætið af hvoru öðru.

Bæði liðin spila leiki sína á sunnudaginn. Manchester City byrjar á því að heimsækja Crystal Palace og getur því verið komið aftur á toppinn þegar leikur Liverpool og Chelsea hefst á Anfield.

Liverpool er með 82 stig og tveggja stiga forskot á Manchester City en City menn eiga leik inni á toppliðið. City er með mun betri markatölu og býr líka að því.  





Margir hafa verið að velta fyrir sér hvort liðið eigi eftir auðveldari leikjadagskrá en það er líka gaman að uppfæra úrslitin úr fyrri leikjunum á leikina sem eru eftir.

Ef lokaleikir City og Liverpool færu eins og í fyrri umferðinni þá myndi Liverpool enda með þriggja stiga forskot og enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 29 ár.

City á eftir sex leiki á móti fimm leikjum hjá Liverpool en City-menn töpuðu bæði fyrir Crystal Palace og Leicester City í fyrri umferðinni.

Liverpool gerði jafntefli við Chelsea í fyrri leiknum á Stamford Bridge en vann öll hin fjögur liðin sem lærisveinar Jürgen Klopp eiga eftir að mæta í deildinni.





Auðvitað eru heimaleikirnir nú útileikir og öfugt sem skiptir vissulega miklu máli. Þá er Manchester City ekki líklegt að fara að tapa aftur fyrir lakari liðum eins og Crystal Palace og Leicester City.

Erfiðustu leikir Manchester City verða að öllu eðlilegu útileikurinn á móti Manchester United og heimaleikurinn á móti Tottenham sem vann einmitt City í Meistaradeildinni í vikunni.

Leikur helgarinnar á móti Chelsea ætti að vera sá erfiðasti fyrir Liverpool en útileikurinn á móti Newcastle í næstsíðustu umferðinni er líka skeinuhættur.

Hér fyrir neðan má sjá leikjadagskrána hjá báðum liðum og hversu mörg stig þau fengu í fyrri leiknum á móti viðkomandi liði.



Leikir sem Manchester City á eftir og stig í fyrri leiknum:

Crystal Palace (úti): 0 stig

Tottenham (heima): 3 stig

Manchester United (úti): 3 stig

Burnley (úti): 3 stig

Leicester City (heima): 0 stig

Brighton (úti): 3 stig

Stig á lokakaflanum: 12 stig úr 6 leikjum

Lokastigafjöldi: 92 stig



Leikir sem Liverpool á eftir og stig í fyrri leiknum:

Chelsea (heima): 1 stig

Cardiff City (úti): 3 stig

Huddersfield (heima): 3 stig

Newcastle (úti): 3 stig

Wolves (heima): 3 stig

Stig á lokakaflanum: 13 stig úr 5 leikjum

Lokastigafjöldi: 95 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×