Íslenski boltinn

„Segir manni að hér er farið að greiða góð laun“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reynir Leósson, einn sérfræðinga Pepsi Max-markanna á Stöð 2 Sport, segir að félagaskipti Hannesar Þórs Halldórssonar sýni glöggt metnaðinn sem Valsmenn búi yfir.

„Liðið var frábærlega mannað og Hannes bætir það auðvitað. Hann hefur okkar besti markvörður undanfarin ár og átt nokkuð farsælan feril sem atvinnumaður. Það muna allir eftir því þegar hann varði vítið frá Messi. Auðvitað er þetta innspýting fyrir félagið og inn í deildina,“ segir Reynir.

Í leikmannahópi Vals eru tveir leikmenn sem eru jafnan í byrjunarliði íslenska landsliðsins.

„Leikmenn eins og hann og Birkir Már áttu möguleika að spila áfram úti en völdu það að koma aftur heim. Þetta segir manni líka það að hér er farið að greiða góð laun. Hannes var algjörlega ófeiminn að gefa það út að hann væri kominn heim til að vera atvinnumaður í fótbolta. Það er nýlunda að íslenskir leikmenn segi það,“ segir Reynir.

Á fjórum tímabilum undir stjórn Ólafs Jóhannessonar hefur Valur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari. Margir bíða spenntir eftir því að sjá hvort Valsmenn láti að sér kveða í Evrópukeppni í sumar.

„Ef það á að taka þetta skref, sem ég held að Valur horfi til, að komast áfram í Evrópukeppni þurfum við að vera með þannig umhverfi að menn geti haft þetta að atvinnu hér. Fjárhagur félaganna þarf að vera í lagi og styðja það,“ segir Reynir.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Hannes orðinn leikmaður Vals

Maðurinn sem varði vítaspyrnu frá Lionel Messi á HM í fyrra er kominn í Pepsi Max-deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×