Íslenski boltinn

Hannes: Er að taka þessa ákvörðun vegna landsliðsins og stöðu minnar þar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes á blaðamannafundinum í dag.
Hannes á blaðamannafundinum í dag. vísir/vilhelm
Hannes Þór Halldórsson segir að hann hafi tekið ákvörðunina með landsliðið í huga að ganga í raðir Vals í Pepsi Max-deild karla.

Hannes skrifaði í dag undir samning við Val en hann segir að það séu margar ástæður fyrir því að hann skrifi undir samning við Íslandsmeistaranna.

„Það eru margar ástæður fyrir því. Ég var ekki að spila í Aserbaídsjan og mér fannst ég verða komast í umhverfi þar sem ég væri að spila reglulega,“ sagði Hannes í samtali við Arnar Björnsson.

„Ég hefði getað elt einhverja stutta samninga úti í Skandinavíu og haldið mér þar úti en svo er fjölskyldan búin að vera á flakki í fimm til sex ár. Það var góður tími til þess að koma heim. Það var komin þreyta að vera á flakki.“

„Það eru spennandi tímar hérna í Val. Ég skynja kraft og stemningu í félaginu. Mér fannst það heillandi og þess vegna tek ég þessa ákvörðun. Mig langaði að koma heim og úr því að sú ákvörðun lá fyrir fannst mér Valur fýsilegasti kosturinn.“

Aðspurður um hversu langt er síðan hann og Valur hófu viðræðurnar svaraði Hannes:

„Það er ekki langt síðan það var gengið frá þessu formlega. Ég vissi af áhuga Vals og fleiri liða í einhvern tíma. Ég hef verið að fá símtöl reglulega eftir að það var ljóst að ég væri kominn út í kuldann í Aserbaídsjan.“

„Þetta er búið að vera óformlegt í smá tíma en við gengum frá þessu almennilega fyrir nokkrum dögum,“ en hvernig sér hann myndina varðandi landsliðssætið er hann er kominn heim í Pepsi Max-deildina?

„Ég er að taka þessa ákvörðun vegna landsliðsins og stöðu minnar þar. Ég vil spila með landsliðinu á EM 2020. Það er stærsti faktorinn. Það hefði ekki verið neitt mál að taka eitt ár í viðbót úti og sitja þar á bekknum. Það hefði skilað ýmsu jákvæðu.“

„Það hefði hins vegar þýtt að ég hefði koðnað niður sem fótboltamaður og fyrst og fremst er mikilvægt fyrir mig að spila. Ég leit á það að ég þyrfti að koma mér burt og hvar ég nákvæmlega sé að spila, skiptir ekki miklu máli.“

Viðtalið í heild sinni við Hannes má sjá hér að neðan.



Klippa: Viðtal við Hannes



Fleiri fréttir

Sjá meira


×