Erlent

Ó­eirðir á Nørrebro: Einn hand­tekinn og lög­regla beitti tára­gasi

Atli Ísleifsson skrifar
Upphaflega stóð til að fundur Paludan yrði haldinn í Mjølnerparken en þau voru flutt á Blågårds Plads á síðustu stundu.
Upphaflega stóð til að fundur Paludan yrði haldinn í Mjølnerparken en þau voru flutt á Blågårds Plads á síðustu stundu. Skjáskot/DR
Lögregla í Kaupmannahöfn hefur handtekið að minnsta kosti einn eftir mótmælafund umdeilds stjórnmálamanns og stuðningsmanna hans á Nørrebro.

Danska ríkisútvarpið greinir frá því að stjórnmálamaðurinn Rasmus Paludan hafi staðið fyrir mótmælum á Blågårds Plads og í kjölfar þeirra hafi blossað upp óeirðir á svæðinu milli stuðningsmanna Paludan og andstæðinga þeirra.

Danskir fjölmiðlar segja lögreglu hafa beitt táragasi, en óeirðaseggir hafa meðal annars kveikt í gámum auk þess kasta stenum í átt að lögreglu. 

Paludan stofnaði flokkinn Stram Kurs árið 2017, en helsta baráttumál hans er gegn svokallaðri íslamsvæðingu. Hann var nýverið dæmdur í fjórtán daga fangelsi fyrir hatursummæli.

Upphaflega stóð til að fundur Paludan yrði haldinn í Mjølnerparken en þau voru flutt á Blågårds Plads á síðustu stundu. Ekstra Bladet segir frá því að um fimmtán til tuttugu mínútur hafi verið liðnar af mótmælafundinum þegar maður réðst í átt að Paludan. Var maðurinn í kjölfarið handtekinn.

Mikil spenna var á svæðinu og magnaðist hún enn frekar eftir að Paludan lyfti fram eintak af Kóraninum.

Lögregla í Kaupmannahöfn hefur hvatt fólk til að halda sig fjarri svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×