Erlent

Tæplega þrjú hundruð manns handteknir á loftslagsmótmælum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmæli Útrýmingarbyltingarinnar hófust í gær og eiga að standa til 29. apríl.
Mótmæli Útrýmingarbyltingarinnar hófust í gær og eiga að standa til 29. apríl. Vísir/EPA

Breska lögreglan handtók 290 mótmælendur fyrir að loka götum í miðborg London. Mótmælendurnir krefjast aðgerða í loftslagsmálum og hafa hótað því að „loka“ London í tvær vikur.

Aðgerðir mótmælendanna hafa valdið miklum röskunum á umferð í London í dag. Lögreglan segir að um hálf milljón manna hafa orðið fyrir áhrifum af því að breyta þurfti 55 strætisvagnaleiðum í dag. Breska ríkisútvarpið BBC segir að hluti mótmælendanna ætli að verja nóttinni í tjöldum í miðborginni.

Mótmælin ganga undir yfirskriftinni Útrýmingarbyltingin en hreyfingin sem stendur að henni hóf aðgerðir í fyrra. Félagar í henni hafa meðal annars lokað brúm, hellt gerviblóði á stéttina fyrir utan Downing-stræti, mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar BBC og hálfnaktir á þingpöllum. Hreyfingin er sögð krefjast þess að stjórnvöld „segi satt“ um loftslagsbreytingar, losun gróðurhúsalofttegunda verði hætt fyrir árið 2025 og stofnað verði borgararáð til að koma á breytingum.

Sadiq Khan, borgarstjóri London, segist deila ástríðu mótmælendanna en að hann hafi miklar áhyggjur af áformum þeirra um að trufla neðanjarðarlestarferðir á morgun. Nauðsynlegt sé að fólk geti nýtt sér almenningssamgöngur til að taka á loftslagsbreytingum.

„Að beina spjótum að almenningssamgöngum með þessum hætti myndu aðeins skaða málstað okkar allra sem viljum taka á loftslagsbreytingum auk þess að stefna öryggir Londonarbúa í hættu og ég biðla til hvers þess sem íhugar að gera það um að hugsa sig tvisvar um,“ segir Khan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.