Erlent

Ríkisstjórn Malí segir af sér eftir morð á 160 hirðingjum

Andri Eysteinsson skrifar
Soumeylou Boubeye Maiga hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2017.
Soumeylou Boubeye Maiga hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2017. Getty/Nicolas Kovarik
Forsætisráðherra Malí, Soumeylou Boubeye Maiga, hefur ásamt allri ríkisstjórn sinni stigið hliðar eftir að árásum og ofbeldi hafði aukist í landinu á undanförnum vikum.

Vantrausttillaga var lögð fram gegn ríkisstjórninni síðasta miðvikudag en þingmenn hafa sagt að forsætisráðherran hafi ekki gert nóg til að reyna að bæta ástandið í landinu. BBC greinir frá.

Forseti Malí, Ibrahim Keita sagði í yfirlýsingu að uppsögn Maiga og ríkisstjórnar hans hafi verið samþykkt. „Nýr forsætisráðherra verður skipaður mjög fljótlega og ný ríkisstjórn tekur við eftir að að viðræðum við alla flokka er lokið,“ sagði Keita forseti í yfirlýsingunni.

Malí hefur glímt við mikinn ofbeldisvanda eftir að vígamenn sem kenna sig við íslamskt ríki náðu bólfestu í Sahara-héruðum í norðurhluta landsins árið 2012. Vígamennirnir hafa síðan dreift verulega úr sér í landinu.

Tugir þúsunda mótmæltu í höfuðborginni Bamakó í upphafi mánaðar eftir að 160 hirðingjar úr Fulani þjóðarbrotinu, næst stærsta þjóðarbroti Malí, voru myrtir af árásarmönnum vopnuðum skotvopnum og sveðju.

Talið er líklegt að árásarmennirnir hafi verið af þjóðarbrotinu Dogon en Fulani og Dogon þjóðarbrotin hafaa lengi vel eldað grátt silfur saman.

Tugir þúsunda mótmæltu á götum úti og í kjölfarið var vantrausttillagan lögð fram sem nú hefur skilað því að Soumeylou Maiga forsætisráðherra hefur sagt af sér ásamt ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×