Enski boltinn

Leeds tapaði þrátt fyrir að vera manni fleiri í 76 mínútur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Leeds vonsviknir með gang mála.
Leikmenn Leeds vonsviknir með gang mála. vísir/getty
Leeds United tapaði fyrir Wigan Athletic, 1-2, í ensku B-deildinni í dag þrátt fyrir að komast yfir og vera manni fleiri í 76 mínútur.

Leeds er í 3. sæti deildarinnar með 82 stig, jafn mörg og Sheffield United en lakari markatölu. Sheffield United vann 2-0 sigur á Nottingham Forest fyrr í dag.

Þegar 14 mínútur voru liðnar af leik Leeds og Wigan fékk Cedric Kipre, varnarmaður gestanna, rautt spjald fyrir að handleika boltann innan vítateigs.

Pablo Hernández fór á punktinn en Christian Walton, markvörður Wigan, varði spyrnu hans. Skömmu síðar kom Patrick Bamford Leeds yfir.

Gavin Massey jafnaði skömmu fyrir hálfleik og á 62. mínútu skoraði hann sitt annað mark og tryggði Wigan mikilvægan sigur í fallbaráttunni. Liðið er nú fimm stigum frá fallsæti.

Aston Villa vann níunda leikinn í röð þegar liðið bar sigurorð af Bolton Wanderers, 0-2. Jack Grealish og Tammy Abraham skoruðu mörk Villa.

Birkir Bjarnason sat allan tímann á varamannabekk Villa sem er í 5. sæti deildarinnar. Bolton er hins vegar fallið eftir úrslit dagsins.

Jón Daði Böðvarsson er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla og lék ekki með Reading í 1-1 jafntefli við Bristol City á útivelli. Reading er fimm stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×