Enski boltinn

Leeds tapaði þrátt fyrir að vera manni fleiri í 76 mínútur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Leeds vonsviknir með gang mála.
Leikmenn Leeds vonsviknir með gang mála. vísir/getty

Leeds United tapaði fyrir Wigan Athletic, 1-2, í ensku B-deildinni í dag þrátt fyrir að komast yfir og vera manni fleiri í 76 mínútur.

Leeds er í 3. sæti deildarinnar með 82 stig, jafn mörg og Sheffield United en lakari markatölu. Sheffield United vann 2-0 sigur á Nottingham Forest fyrr í dag.

Þegar 14 mínútur voru liðnar af leik Leeds og Wigan fékk Cedric Kipre, varnarmaður gestanna, rautt spjald fyrir að handleika boltann innan vítateigs.

Pablo Hernández fór á punktinn en Christian Walton, markvörður Wigan, varði spyrnu hans. Skömmu síðar kom Patrick Bamford Leeds yfir.

Gavin Massey jafnaði skömmu fyrir hálfleik og á 62. mínútu skoraði hann sitt annað mark og tryggði Wigan mikilvægan sigur í fallbaráttunni. Liðið er nú fimm stigum frá fallsæti.

Aston Villa vann níunda leikinn í röð þegar liðið bar sigurorð af Bolton Wanderers, 0-2. Jack Grealish og Tammy Abraham skoruðu mörk Villa.

Birkir Bjarnason sat allan tímann á varamannabekk Villa sem er í 5. sæti deildarinnar. Bolton er hins vegar fallið eftir úrslit dagsins.

Jón Daði Böðvarsson er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla og lék ekki með Reading í 1-1 jafntefli við Bristol City á útivelli. Reading er fimm stigum frá fallsæti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.