Erlent

Kushner sagður nota WhatsApp til að ræða við erlenda aðila

Kjartan Kjartansson skrifar
Jared Kushner (t.v.) og Ivanka Trump (t.h.).
Jared Kushner (t.v.) og Ivanka Trump (t.h.). AP/Pablo Martinez Monsivais
Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa krafið Hvíta húsið um upplýsingar um notkun starfsmanna þess á skilaboðaforritum og öðrum samskiptaforritum í ljósi vísbendinga um að tengdasonur Donalds Trump forseta noti spjallforritið WhatsApp í opinberum erindrekstri. Þá er dóttir forsetans sögð nota persónulegan tölvupóst í opinberum erindagjörðum.

Lögmaður Jareds Kushner, tengdasonar Trump og helsta ráðgjafa, sagði Elijah Cummings, formanni eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að Kushner notaði WhatsApp í opinberum erindagjörðum í desember. Frá þessu greindi Cummings í bréfi til Hvíta hússins þar sem hann krafðist gagna um notkun starfsmanna á samskiptaforritum, að sögn Washington Post.

Tölvupóstar og fjarskiptaöryggi urðu að einu umtalaðasta máli kosningabaráttunnar fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Þá gagnrýndu repúblikanar Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, harðlega fyrir að hafa haft samskipti um eigin tölvupóstþjón þegar hún var utanríkisráðherra. Trump kallaði meðal annars eftir því að hún yrði fangelsuð fyrir það þrátt fyrir að alríkislögreglan FBI hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að sækja hana til saka.

Hafi Kushner notað dulkóðuð skilaboð sem WhatsApp býður upp á til að senda skilaboð í tengslum við opinber störf sín gæti það verið brot á stefnu Hvíta hússins og lögum um varðveislu gagna forsetaembættisins nema hann hafi gert afrit af þeim á opinberum samskiptamiðlum sínum innan tuttugu daga.

Cummings segir að lögmaður Kushner hefði fullyrt við sig að hann hefði farið að lögum og reglum vegna þess að hann hefði tekið skjáskot af samskiptum sínum og áframsent þau á opinbert tölvupóstfang sitt eða til starfsmanna þjóðaröryggisráðsins. Lögmaðurinn neitaði því að Kushner hefði notað WhatsApp til að eiga í samskiptum við erlenda þjóðarleiðtoga.

Trump er sagður hafa skipað persónulega fyrir um að tengdasonur sinn skyldi fá öryggisheimild þrátt fyrir andmæli leyniþjónustusérfræðinga.AP/Evan Vucci

Sendi hundruð pósta frá persónulegu tölvupóstfangi

Lögmaðurinn sagði Cummings einnig að Ivanka Trump, dóttir forsetans, eiginkona Kushner og ráðgjafi í Hvíta húsinu, hefði tekið við tölvupóstum vegna opinberra erinda á persónulegu tölvupóstfangi sínu og að hún áframsendi þá pósta ekki alltaf á opinbert tölvupóstfang sitt hjá Hvíta húsinu.

Átti hann þá við fyrir september árið 2017 þegar lögfræðingar Hvíta hússins áttuðu sig á umfangi tölvupóstsendinga hennar í gegnum persónulegt póstfang. Þá hafði komið í ljós að hún hefði sent hundruð pósta frá persónulegu póstfangi sínu til starfsmanna Hvíta hússins og braut það gegn alríkislögum um varðveislu gagna.

Sagt var frá því fyrir nokkru að Trump forseti hefði gripið fram fyrir hendurnar á leyniþjónustusérfræðingum sem töldu að Kushner ætti ekki að fá hæstu mögulega öryggisheimild. Þeir óttuðust að reynsluleysi Kushner og flókið net viðskiptahagsmuna gæti gert erlendum ríkjum auðvelt að notfæra sér hann.

Trump hafi gefið skipun um að Kushner fengi hæstu möguleg öryggisheimild. Forsetinn hafði áður neitað því að hafa komið nálægt veitingu heimildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×