Erlent

Ísraelsher lét sprengjum rigna yfir Gaza-ströndina í gærkvöld

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Andartakið þegar flugskeyti hæfði heimili fyrrverandi forsætisráðherra Palestínu.
Andartakið þegar flugskeyti hæfði heimili fyrrverandi forsætisráðherra Palestínu. nordichpotos/AFP
Ísraelski herinn hóf í gær loftárásir á Gaza-svæðið. Að sögn ísraelskra yfirvalda er árásin til komin vegna flugskeytaárásar Palestínumanna árla í gær. Skeytið hæfði hús í Ísrael miðju og særði sjö.

Fyrir tæpum tveimur vikum hafði flugskeyti verið skotið frá Gaza í átt að Tel Avív án þess að valda tjóni. Ísraelsmenn hafa skellt ábyrgðinni á Hamas-liða en samtökin hafa neitað því alfarið að hafa verið þarna að verki.

Um miðjan dag í gær var ljóst í hvað stefndi. Ísraelskir hermenn töku sér stöðu við landamærin og almennum borgurum var bent á hvar hægt væri að leita skjóls kæmi til þess að Palestínumenn myndu svara í sömu mynt. Þá var skólum víðs vegar í Ísrael lokað í dag.

Íbúar Palestínu vissu á hverju var von. Fjöldi lagði leið sína í verslanir til að byrgja sig upp af nauðsynjum og tiltækt starfsfólk heilbrigðisstofnana var kallað út á vakt. Heilbrigðisráðuneytið sendi einnig út tilkynningu til íbúa um að vera viðbúnir ísraelskum loftárásum og gera það sem í þeirra valdi stæði til að vernda sig gegn þeim.

Skömmu fyrir klukkan 22 að staðartíma, rétt fyrir sjö að íslenskum tíma, sögðu palestínskir miðlar frá því að ísraelsk sprengja hefði endað för sína á heimili Ismails Haniyeh, leiðtoga stjórnmálaarms Hamas-samtakanna og fyrrverandi forsætisráðherra Palestínu.

Að sögn fréttaritara Al-Jazera á Gaza virðast mögulegar þjálfunarstöðvar hernaðararms Hamas hafa verið skotmark árásar Ísraelsmanna. Ljóst sé hins vegar að aðrar byggingar hafi einnig orðið fyrir sprengjum. Tölur um fjölda látinna og særðra lágu ekki fyrir þegar Fréttablaðið fór í prentun.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.