Íslenski boltinn

Tæplega 60 prósent leikja Pepsi Max-deildarinnar á gervigrasi?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fylkismenn fengu gervigras um mitt sumar í fyrra.
Fylkismenn fengu gervigras um mitt sumar í fyrra. vísir/vilhelm

Svo gæti farið að ríflega helmingur liðanna í Pepsi Max-deild karla í fótbolta spili á gervigrasi á næstu leiktíð sem hefst 26. apríl með Reykjavíkurslag Íslandsmeistara Vals og Víkings á Origo-vellinum.

Nú þegar er ljóst að helmingur liðanna í deildinni spila sína leiki á gervigrasi og þar af leiðandi verða 66 leikir af 132 eða helmingur allra leikja deildarinnar á gervigrasi.

Valur, Stjarnan, Fylkir og HK eru klár með sína velli en Breiðablik og Víkingur eru að koma sér upp gervigrasvelli. Víkingar spila framan af móti á gervigrasvelli Þróttara í Laugardalnum.

Nú vilja KA-menn bætast við gervigrashópinn en Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, staðfestir við Fótbolti.net að Akureyrarfélagið vill spila sína heimaleiki á gervigrasinu við KA-heimilið í sumar.

KA-menn eru búnir að óska eftir því við KSÍ og Akureyrarbæ að flytja völlinn upp á KA-svæðið en þar þurfa KA-menn að byggja bráðabirgðastúku sem fengi undanþágu í tvö ár. Einnig þurfa þeir að koma upp fjölmiðlaaðstöðu. Þetta vilja gulir gera.

Bætist KA í gervigrashópinn verða sjö félög á gervigrasi í sumar og fer fjöldi leikja á gervigrasi upp í 77 sem gerir 58 prósent allra leikja Pepsi Max-deildarinnar.

Sé horft aðeins tvö ár aftur í tímann voru aðeins tvö félög með gervigras í efstu deild en það voru Valur og Stjarnan. Þá fóru aðeins 22 leikir fram á gervigrasi eða tæplega 17 prósent.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.