Innlent

Hrútfirðingum finnst þeir eiga Staðarskála

Kristján Már Unnarsson skrifar
Inga Hrönn Georgsdóttir, bóndi á Kjörseyri og aðstoðarverslunarstjóri N1 í Staðarskála.
Inga Hrönn Georgsdóttir, bóndi á Kjörseyri og aðstoðarverslunarstjóri N1 í Staðarskála. Stöð 2/Einar Árnason.

Staðarskáli er stærsta fyrirtæki í Húnavatnssýslum og þar hafa þeir afgreitt uppundir áttahundruð pylsur á dag ofan í viðskiptavini og yfir eitthundrað lítra af kjötsúpu. Þótt hann sé ekki lengur í eigu heimamanna í Hrútafirði líta þeir samt á hann svolítið sem sína eign. Fjallað var um Staðarskála í þættinum „Um land allt“ og í fréttum Stöðvar 2. 

Í ljóði Þórarins Eldjárns frá árinu 1991, Staðarskáli er Ísland, segir að þessi miðstöð mannaferða sé Mekka allra þeirra sem á landið trúa. Ljóðið er nú greipt í glervegg í anddyri Staðarskála.

Nýi Staðarskáli var opnaður árið 2008 þegar þjóðvegurinn um botn Hrútafjarðar var færður. Stöð 2/Einar Árnason.

„Ætli meðaltalið hjá okkur í fyrrasumar hafi ekki verið á bilinu sex- til áttaþúsund manns á dag sem komu í húsið,“ segir Einar Ísfjörð, verslunarstjóri N1 í Staðarskála. 

Í afgreiðslunni og eldhúsinu mega starfsmenn hafa sig alla við að sinna óskum vegfarenda í þessari helstu umferðarmiðstöð þjóðveganna.

Einar Ísfjörð, verslunarstjóri N1 í Staðarskála. Stöð 2/Einar Árnason.

„Við höfum alveg farið upp í 100-150 lítra á góðum degi af kjötsúpu. Stærsti dagur í pylsum held ég hafi verð hátt í 800 pylsur á dag,“ segir Einar. 

Núverandi skáli er arftaki bæði gamla Staðarskála og gamla Brúarskála en þeir höfðu áður verið í eigu heimamanna; Staðarskáli í eigu Staðarmanna en Brúarskáli í eigu kaupfélagsins.

Brúarskáli stóð við gatnamótin hjá gömlu símstöðinni á Brú. Hann var rifinn árið 2008 þegar hann þurfti að víkja fyrir nýja veginum. Mynd/Brúarhópurinn.

Og enn í dag er Staðarskáli vinnustaður sem tengist nánast hverjum einasta bæ í sveitinni, en þar starfa 56 manns á sumrin og 26 manns yfir vetrartímann, margir úr Hrútafirði.

En er erfitt fyrir Hrútfirðinga að Staðarskáli skuli ekki lengur vera í þeirra eigu heldur hlutafélags í Reykjavík?

Gamli Staðarskáli árið 1995. Hann er í dag nýttur sem gistihús fyrir starfsmenn Staðarskála. Mynd/Staðarhópurinn.

„Við lítum svolítið á þetta sem okkar eign, samt sem áður,“ segir Inga Hrönn Georgsdóttir, bóndi á Kjörseyri og aðstoðarverslunarstjóri, en hún byrjaði 16 ára gömul að vinna í Brúarskála. 

Staðarskáli er vinsælasti áningarstaður trukkabílstjóranna, eins og þeirra Ómars Sigurðssonar og Gunnlaugur Hjörvars Gunnlaugssonar, en þeir starfa hjá Ekju og Eimskip. Þeir segjast staldra þar við nánast daglega.

Flutningabílstjórarnir Ómar Sigurðsson og Gunnlaugur Hjörvar Gunnlaugsson snæða kvöldverð í Staðarskála. Stöð 2/Einar Árnason.

Þeir voru að snæða lambalærissneiðar í raspi með kartöflum, rauðkáli og brúnsósu en þeir segja „mömmumatinn“ helstu ástæðu þess að trukkabílstjórar velja staðinn. 

„Þetta er svona félagsmiðstöðin okkar. Hérna verða sögurnar til og slúðrið,“ segir Gunnlaugur. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Veitingaskálanum Brú lokað

Búið er að loka veitingaskálanum Brú og eru starfsmenn N1 í óða önn að taka niður innanstokksmuni, eldsneytistanka, gera vörutalningu, dæla af tönkum og ganga frá. Þetta kemur fram á Strandavefnum, en tíðindamaður vefsins kom að lokuðum dyrum þar í gær. „Fimmtíu og fjögurra ára sögu veitingareksturs í Brú er lokið, en skálinn var um árabil stærsti vinnustaður í Bæjarhreppi. Kaupfélag Hrútfirðinga Borðeyri rak skálann lengst af, en síðustu árin var hann í eigu Olíufélagsins (síðar N1), sem eignaðist einnig Staðarskála í fyrra.“ N1 vinnur nú að byggingu nýrrar þjónustumiðstöðvar við vegamót nýja vegarins um Hrútafjarðarbotn um hún taka við hlutverki Brúar og Staðarskála þegar umferð verður hleypt á veginn í september.

Framkvæmdir á fullu í Hrútafjarðarbotni

Framkvæmdir við veglagningu í botni Hrútafjarðar eru nú á fullu gasi. Þar er verið að leggja nýjan veg og færist hringvegurinn nokkuð nær Borðeyri við þá framkvæmd. Um leið styttist leiðin milli Stranda og Norðurlands um 8,5 kílómetra, að því er fram kemur á strandir.is. „Vel virðist ganga við vegagerð og einnig er unnið að brúarsmíði, en ný brú leysir af hólmi brýrnar yfir Hrútafjarðará og Síká, en sú síðarnefnda er síðasta einbreiða brúin á hringveginum á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Jafnframt er unnið að því að reisa nýjan söluskála N1 við ný vegamót í fjarðarbotninum, en þegar hann opnar verða bæði Staðarskáli og Brúarskáli lagðir niður sem veitinga- og vegasjoppur. Verkinu lýkur í haust“, segir á strandir.is.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.