Enski boltinn

Vill sjá Virgil valinn besta leikmann ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Virgil van Dijk
Virgil van Dijk vísir/getty
Andrew Robertson vill sjá félaga sinn í vörn Liverpool Virgil van Dijk verða valinn besta leikmann tímabilsins af leikmannasamtökunum í ensku úrvalsdeildinni.

Veðbankar segja van Dijk líklegastan til þess að hreppa verðlaunin og halda þeim því í herbúðum Liverpool, en Mohamed Salah var valinn bestur síðasta vor.

Þetta verður í 45. skipti sem verðlaunin eru veitt en aðeins fimm sinnum hefur varnarmaður unnið þau. John Terry gerði það síðast fyrir 14 árum.

Van Dijk hefur verið lykilmaður í vörn Liverpool sem hefur aðeins fengið á sig 16 deildarmörk í vetur, færri en nokkuð annað lið.

„Ef tímabilið endaði núna myndi ég gefa honum verðlauninn,“ sagði Robertson.

„Það eru enn tíu leikir eftir og einhver í öðru liði gæti stigið upp, en ég held Virgil geti enn farið upp á hærra stig.“

„Venjulega er mest talað um sóknarmenn því þeir fá allar fyrirsagnirnar, en Virgil hefur verið algjörlega frábær og hann er að fá allt það hrós sem hann á skilið.“

Liverpool er með eins stigs forskot á Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×