Erlent

Dómsmálanefnd hefur rannsókn á Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Demókratar hafa nú yfirráðin í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Demókratar hafa nú yfirráðin í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Vísir/Getty
Dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings undirbýr nú rannsókn á því hvort Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi hindrað framgang réttvísinnar og/eða misbeitt valdi sínu. Formaður nefndarinnar segir að nefndin muni krefjast gagna frá meira en 60 einstaklingum og samtökum vegna rannsóknarinnar. Reuters greinir frá.

Nefndin hefur meðl annars í hyggju að óska eftir skjölum frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Donald Trump jr., syni Trump sem og Allen Weisselberg, fjármálastjóri Trump Organization, regnhlífarfyrirtæki viðskiptaveldis Trump.

„Við ætlum að hefja rannsókn á misbeitinu valds, spillingu og hindrun framgangs réttvísinnar,“ sagði demókratinn Jerrold Nadler sem er formaður nefndarinnar.

Eftir að demókratar náði völdum í fulltrúadeildinni, neðri deild Bandaríkjaþings, í síðustu kosningum var fastlega gert ráð fyrir því að þeir myndu nýta völd sín þar til þess að hefja rannsóknir á embættisfærslum Trump, sem og aðdraganda þess að hann varð forseti.

Nadler var til viðtals á ABC-sjónvarpstöðinni fyrr í dag þar sem hann sagði að það væri augljóst að forsetinn hafi hindrað framgang réttvísinnar. Það væri hins vegar verkefni nefndarinnar nú að færa almenningi sönnunargögn um slíkt athæfi forsetans.

Máli sínu til stuðnings nefndi Nadler brottrekstur James Comey, sem gegndi embætti forstjóra Bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Var hann yfirumsjónarmaður rannsóknar FBI á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og mögulegum tengslum framboðs Trump við Rússa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×