Erlent

BBC og NRK hætta að spila lög Michael Jackson

Atli Ísleifsson skrifar
Michael Jackson hefur áður verið sakaður um kynferðisbrot gegn börnum.
Michael Jackson hefur áður verið sakaður um kynferðisbrot gegn börnum. Getty

Breska ríkisútvarpið BBC og norska ríkisútvarpið NRK hafa bæði ákveðið að hætta að spila tónlist Michael Jackson á útvarpsstöðvum þess, í það minnsta tímabundið.

Er ástæðan rakin til nýrra upplýsinga sem fram koma í heimildarmyndinni Leaving Neverland, sem frumsýnd verður síðar í vikunni, þar sem tónlistarmaðurinn er sakaður um gróf kynferðisbrot gegn börnum.

Telegraph segir að ákvörðun BBC um að hætta spila lög Jackson á útvarpsstöðinni Radio 2 hafi verið tekin í síðustu viku. Síðasta lag Jackson sem spilað var á stöðinni var lagið Rock with You frá árinu 1979 sem spilað var 23. febrúar síðastliðinn.

Á vefsíðu NRK segir að lög Michael Jackson verði ekki spiluð á útvarpsstöðvum þess í tvær vikur frá og með föstudeginum 8. mars. Knut Henrik Ytre-Arne, tónlistarstjóri NRK, segir Jackson hafa mikla þýðingu fyrir stóran áhorfendahóp. Erfitt sé að segja til um það nú hvort að NRK hætti alfarið að spila tónlist hans, en að tekið verði tillit til viðbragða almennings eftir frumsýningu á Leaving Neverland.

Skjáskot af forsíðu NRK.

Í heimildarmyndinni, sem er í tveimur hlutum, segja þeir James Safechuck og Wade Robson frá því að þeir hafi verið kynferðislega misnotaðir af Jackson um margra ára skeið.

Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri Rásar 2, segir í samtali við Vísi að sú umræða hvort að hætta eigi spilun laga Michael Jackson hafi ekki verið tekin innan veggja RÚV.

Ágúst Héðinsson, forstöðumaður hjá Sýn sem rekur útvarpsstöðvarnar Bylgjuna, FM957 og X-ið, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort til standi að hætta að spila lög Michael Jackson á útvarpsstöðvum fyrirtækisins. Grannt sé þó fylgst með málinu.

Að neðan má sjá stikluna fyrir heimildarmyndina Leaving Neverland.

Vísir er í eigu Sýnar.


Tengdar fréttir

Sláandi stikla úr Leaving Neverland

Tveir menn lýsa grófum kynferðisbrotum bandaríska söngvarans Michael Jacksons gegn þeim í nýrri heimildarmynd, Leaving Neverland, sem HBO mun sýna í tveimur hlutum 3. og 4. mars.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.