Erlent

Telja Norður-Kóreu vera að undirbúa eldflauga- eða gervihnattarskot

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump og Kim Jong-un hittust á leiðtogafundi í Hanoi í Víetnam fyrir stuttu.
Donald Trump og Kim Jong-un hittust á leiðtogafundi í Hanoi í Víetnam fyrir stuttu. VNA/Getty
Nýjar gervihnattamyndir af iðnaðarsvæði skammt frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, hafa valdið áhyggjum innan ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að Norður-Kóreumenn séu að undirbúa gervihnattar- eða eldflaugarskot á næstu misserum. Myndirnar voru birtar af bandarísku útvarpsstöðinni NPR.

Myndirnar sýna aukna virkni á svæðinu, þekktu sem Sanumdong, en þar hafa Norður-Kóreumenn sett saman flestar skot- og eldflaugar sínar í gegn um tíðina.

Fyrir nokkru bárust fréttir af því að unnið sé að endurbyggingu eldflaugastöðvar í Sohae, þaðan sem flest eldflaugaskot landsins hafa komið. Vinna við að taka skotsvæðið niður hófst á síðasta ári en stöðvaði þegar viðræður milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu stöðnuðu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að hvers konar vopnaprófun af hálfu Norður-Kóreu myndu valda honum vonbrigðum

„Það kæmi mér á óvart á neikvæðan hátt ef hann [Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu] kynni að gera eitthvað sem væri ekki samkvæmt samkomulagi okkar. En við sjáum hvað setur. Ég yrði fyrir miklum vonbrigðum ef ég sæi vopnaprófun.“

Sérfræðingar telja líklegra að Norður-Kóreumenn séu að undirbúa að skjóta upp gervihnetti frekar en að prófa langdrægar skot- eða eldflaugar. Bandarísk stjórnvöld hafa þó sagt að það væri einnig í trássi við þau loforð sem Kim Jong-un hefur gefið Trump Bandaríkjaforseta.


Tengdar fréttir

Trump heldur að Kim valdi sér ekki vonbrigðum

Fréttir hafa borist af því að Norður-Kórea byggi aftur upp eldflaugastöð sína. Trump Bandaríkjaforseti segist verða fyrir vonbrigðum með Kim Jong-un reynist það rétt en að hann trúi ekki að það gerist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×