Erlent

Trump frestar tollahækkun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump fundaði með varaforseta Kína, Liu He, í Hvíta húsinu á föstudag.
Donald Trump fundaði með varaforseta Kína, Liu He, í Hvíta húsinu á föstudag. Vísir/AFP
Hlutabréfaverð á Asíumörkuðum hækkaði í morgun eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því að hann ætli að bíða með að hækka tolla á vörur frá Kína. Hækkunin átti að taka gildi 1. mars, föstudaginn næstkomandi. Samsetta vísitalan í Sjanghæ hækkaði um fimm prósent við opnun markaða og hefur ekki verið hærri í hálft ár.

Ástæða frestunar Trumps er sögð vera sú að samningaviðræður Kínverja og Bandaríkjamanna í tolladeilu þeirra hafa gengið vel um helgina. Því hafi hann ákveðið að fresta hækkunum á vörur frá Kína upp á 200 milljarða dala.

Fréttir kínverskra og bandarískra miðla renna stoðum undir fullyrðingar forsetans. Þannig sagði í frétt kínversku ríkisfréttastofunnar Xinhua að „mikill árangur“ hefði náðst í viðræðum um einstaka en þó veigamikla þætti, eins og á sviði hugverkaréttinda og landbúnaðar.

Greint var frá því fyrir helgi að Kínverjar hefðu skuldbundið sig til að kaupa vörur frá Bandaríkjunum fyrir 1,2 billjónir (e. trillion) dala, 142 billjónir íslenskra króna.

Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að bjóða kínverka starfsbróður sínum, Xi Jinping, til fundar á Flórída ef þeim tekst að ná frekari árangri í samningaviðræðunum.


Tengdar fréttir

Trump gæti leyst Huawei-stýru úr haldi

Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei, var látin laus gegn tryggingu í Kanada í gær. Ellefu dagar eru nú liðnir frá því hún var handtekin, að beiðni Bandaríkjamanna, grunuð um að hafa afvegaleitt banka um ítök Huawei í Íran og þar með þá í hættu á því að brjóta gegn viðskiptaþvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×