Erlent

Innsetningarnefnd Trump stefnt í Washington-borg

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá innsetningarathöfn Trump í janúar árið 2017. Innsetningarnefndin safnaði hundrað milljónum dollara fyrir hátíðarhöldin, jafnvirði tæpra tólf milljarða króna.
Frá innsetningarathöfn Trump í janúar árið 2017. Innsetningarnefndin safnaði hundrað milljónum dollara fyrir hátíðarhöldin, jafnvirði tæpra tólf milljarða króna. Vísir/EPA
Dómsmálaráðherra Washington-borgar hefur stefnt innsetningarnefnd Donalds Trump Bandaríkjaforseta um gögn sem tengjast fjármálum hennar. Nefndin safnaði metupphæð fyrir innsetningarhátíð Trump árið 2016 og er rannsóknin sögð beinast að því hvort að henni hafi verið beitt til auðgunar fyrirtækja forsetans.

Saksóknarar í New York hafa þegar stefnt nefndinni um upplýsingar. Washington Post segir að sú rannsókn virðist fyrst og fremst beinast að fjárframlögum sem nefndin tók við, ekki síst frá erlendum aðilum. Alls safnaði nefndin um 100 milljónum dollurum, tvöfalt meira en innsetningarnefnd Baracks Obama safnaði árið 2009 sem þá var met.

Gögnin sem dómsmálaráðherra Washington-borgar sækist nú eftir tengjast hins vegar greiðslum til fjölskyldufyrirtækis Trumps eða Trump-alþjóðahótelsins í borginni. Blaðið segir að það bendi til þess að rannsóknin beinist að því hvort að nefndin hafi brotið lög sem eiga að tryggja að félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni séu notuð til að ágóða fyrir einkaaðila á óeðlilegan hátt.

Fjárhagslegir bakhjarlar innsetningarnefndar Trump voru stórfyrirtæki og auðugir stuðningsmenn hans samkvæmt gögnum sem hún hefur skilað alríkiskjörstjórn Bandaríkjanna.

Möguleg brot af þessu tagi væru einkamál en ekki sakamál. Þó að dómsmálaráðherra Washington-borgar hafi takmörkuð völd til að reka sakamál getur hann sektað félög og fyrirtæki sem brjóta lög og reglur og jafnvel leyst þau upp.


Tengdar fréttir

Rannsaka eyðslu í tengslum við embættistöku Trump

Alríkissaksóknarar í New York hafa hafið sakamálarannsókn á því hvort að nefnd sem bar ábyrgð á innsetningu Donald Trump í embætti hafi misfarið með hluta þess fé sem hún hafi safnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×