Erlent

Trump mun lýsa yfir neyðarástandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Susan Walsh
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að lýsa yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum. Hann ætlar einnig að skrifa undir útgjaldafrumvörp sem þingmenn Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins komust að samkomulagi um varðandi fjármögnun til öryggismála á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Þetta sagði Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana á öldungadeildinni nú í kvöld og sagðist hann styðja ákvörðun forsetans.

Án samkomulagsins leit út fyrir að fjórðungi alríkisstofnanna yrði lokað á nýjan leik á morgun. Trump var þó ekki sáttur við hve miklu fé þingið myndi veita til byggingar múrs á landamærunum. Með því að skrifa undir frumvörpin og lýsa yfir neyðarástandi ætlar Trump sér að sækja meira fé í neyðarsjóði herafla Bandaríkjanna, sem er að mestu ætlað til að bregðast við hamförum og reisa varnarvirki.

Á meðan að þingmenn funduðu og reyndu að komast að samkomulagi hafði Trump lýst því yfir að störf samninganefndarinnar skiptu í raun ekki máli. Hann myndi byggja múrinn sjálfur og án hjálpar þingsins.

Svo virðist sem að yfirlýsing McConnell hafi komið mörgum þingmanna Repúblikanaflokksins á óvart, sé miðað við fyrstu viðbrögð þeirra. Samkvæmt Politico höfðu þingmenn reynt að fá Trump til að láta af hugmyndinni um að lýsa yfir neyðarástandi og óttast að það gæti sett slæmt fordæmi svo komandi forsetar Demókrataflokksins gætu einnig lýst yfir neyðarástandi til að grípa til umfangsmikilla aðgerða varðandi umhverfisvernd og byssueign, eins og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði í kvöld að gæti gerst.

Aðrir þingmenn, en þó færri, hafa hvatt Trump til að lýsa yfir neyðarástandi.

Báðar deildir þingsins hafa nú samþykkt útgjaldafrumvörpin og á Trump eftir að skrifa undir þau.

Búist er við því að yfirlýsing Trump muni þurfa að fara í gegnum langt dómsferli og hafa Demókratar lengi undirbúið lögsóknir til að stöðva Trump í því að komast hjá þinginu. Líklegt þykir að slík málaferli muni að miklu leyti snúast um það hvort raunverulegt neyðarástand ríki á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Trump heldur því fram en það gera sérfræðingar og fræðimenn ekki og þá sérstaklega með tilliti til þess að flæði fólks yfir landamærin hefur ekki verið minna í næstum 50 ár. Þá hafa Trump-liðar verið gagnrýndir harðlega fyrir að teygja sannleikann og nota tölfræði úr samhengi til að réttlæta byggingu múrsins.


Tengdar fréttir

Ekki á­nægður með sam­komu­lagið vegna múrsins

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur enn ekki tekið afstöðu til samkomulagsins sem náðist á Bandaríkjaþingi og á að koma í veg fyrir að loka þurfi ríkisstofnunum í landinu næstkomandi föstudag.

Demókratar og Repúblikanar komust að samkomulagi

Demókratar og Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa komist að samkomulagi sem ætlað er að koma í veg fyrir lokun alríkisstofnana næstkomandi föstudag eins og stefndi í á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×