Erlent

Gagnrýnandi Alþjóðabankans tilnefndur forseti hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Malpass vann meðal annars fyrir undirbúningsnefnd fyrir valdatöku Trump og er sagður dyggur stuðningsmaður forsetans.
Malpass vann meðal annars fyrir undirbúningsnefnd fyrir valdatöku Trump og er sagður dyggur stuðningsmaður forsetans. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður ætla að tilnefna David Malpass, aðstoðarfjármálaráðherra sinn, sem næsta forseta Alþjóðabankans. Malpass hefur verið harður gagnrýnandi bankans. Búist er við því að Trump tilkynni um valið á morgun.

Löng hefð er fyrir því að Bandaríkin tilnefni forseta Alþjóðabankans sem stærsti hluthafi hans. Stjórn bankans þarf að staðfesta tilnefninguna, að sögn New York Times. Bankinn er vettvangur fyrir þróuðustu ríki heims til að lána þróunarríkjum til að fjármagna uppbyggingu innviða og þróunarverkefni.

Mögulegt er talið að Malpass verði ekki óumdeildur í stjórninni. Hann hefur eins og Trump sjálfur ítrekað véfengt störf Alþjóðbankans og annarra alþjóðastofnana. Malpass, sem stýrt hefur viðræðum Bandaríkjastjórnar við Kínverja um viðskiptasamband ríkjanna, hefur meðal annars gagnrýnt að Alþjóðabankinn láni Kína.

Yrði Malpass staðfestur í embættið tæki hann við af Jim Yong Kim sem tilkynnti skyndilega um afsögn sína í síðasta mánuði. Hann átti nærri því þrjú ár eftir af kjörtímabili sínu hjá bankanum.

Malpass var meðal annars yfirhagfræðingur fjárfestingabankans Bear Stearns frá 1993 fram að falli hans árið 2008. Hann bauð sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir repúblikana í New York árið 2010 en tapaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×