Erlent

Drög að friðarsamkomulagi í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá fundi Khalizad, erindreka Bandaríkjanna í Afganistan (3.f.v.), með Ashraf Ghani, forseta landsins (f.m.), í dag. Þar kynnti Khalizad árangur af viðræðum við talibana sem neita að ræða beint við afgönsk stjórnvöld.
Frá fundi Khalizad, erindreka Bandaríkjanna í Afganistan (3.f.v.), með Ashraf Ghani, forseta landsins (f.m.), í dag. Þar kynnti Khalizad árangur af viðræðum við talibana sem neita að ræða beint við afgönsk stjórnvöld. Vísir/EPA
Samningamenn Bandaríkjastjórnar og talibana hafa náð saman um drög að friðarsamkomulagi í Afganistan. Sérfræðingar telja þó að mörg ár geti liðið þar til raunverulegur friðarsamningur verður að veruleika.

Zalmay Khalizad, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar í Afganistan, segir að árangurinn hafi náðst í sex daga viðræðum við fulltrúa talibana í Katar í síðustu viku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Vinna þurfi frekar í drögunum áður en þau verða að fullburða friðarsamningi.

Í viðtali við New York Times segir Khalizad að talibanar hafi samþykkt að skuldbinda sig til þess að koma í veg fyrir að Afganistan verði að miðstöð fyrir hryðjuverkasamtök. Fulltrúar talibana hafa fram að þessu neitað að ræða við afgönsk stjórnvöld og segjast ekki ætla að gera það nema fyrir liggi dagsetning á brotthvarfi bandarísks herliðs.

Talibanar stýrðu Afganistan með harðri hendi frá 1996 til 2001 og eru stærsti hópur uppreisnarmanna í landinu. Bandaríkjaher hrakti þá af valdastóli með innrás sinni í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september árið 2001.

Um fjórtán þúsund bandarískir hermenn eru í Afganistan auk þúsunda hermanna annarra NATO-ríkja sem þjálfa og aðstoða afganska öryggissveitir gegn hryðjuverkum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×