Erlent

Talibanar segjast hafa skrifað undir drög að friðursamkomulagi

Samúel Karl Ólason skrifar
Hingað til hafa Talibanar neitað að ræða við yfirvöld í Afganistan og hafa bara viljað ræða við erindreka Bandaríkjanna.
Hingað til hafa Talibanar neitað að ræða við yfirvöld í Afganistan og hafa bara viljað ræða við erindreka Bandaríkjanna. AP/Rahmat Gul
Samningamenn Bandaríkjanna og Talibana eru sagðir hafa skrifað undir drög að friðarsamkomulagi í Afganistan. Samkomulagið mun fela í sér að allir erlendir hermenn verði farnir frá landinu eftir 18 mánuði. Friðarviðræður hafa staðið yfir í Katar í vikunni og lauk lotunni í dag en hvorki yfirvöld Bandaríkjanna né Afganistan hafa staðfest fregnirnar, sem Reuters hefur eftir heimildarmönnum sínum innan fylkinga Talibana.



Zalmay Khalilzad, sérstakur erindreki Bandaríkjanna, fór beina leið frá Katar í dag og á fund Ashraf Ghani, forseta landsins, til að kynna drögin fyrir honum.

Talibanar segja samkomulagið einnig fela í sér að hryðjuverkamönnum al-Qaeda eða Íslamska ríkisins verði ekki leyft að notast við Afganistan til að undirbúa eða framkvæma hryðjuverkaárásir á Bandaríkin eða bandamenn þeirra.

Þá snýr samkomulagið einnig að vopnahléi í Afganistan en Talibanar munu ræða það frekar við embættismenn í Afganistan. Hingað til hafa Talibanar neitað að ræða við yfirvöld í Afganistan og hafa bara viljað ræða við erindreka Bandaríkjanna.

Næsta samningalota verður í febrúar og munu samningamennirnir koma aftur saman í Katar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×