Erlent

FBI veitir norsku lögreglunni liðsstyrk

Andri Eysteinsson skrifar
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Bandaríska alríkislögreglan hefur aðstoðað norsku lögregluna í leitinni að Anne-Elisabeth Falkevik Hagen sem hefur verið saknað frá morgni 31. október í fyrra. Norska lögreglan staðfesti aðkomu alríkislögreglunnar FBI í dag.

„Það er rétt að FBI hafi verið viðriðin rannsókn sakamálsins. En ekki er hægt að greina frá því hvernig þau hafa veitt aðstoð“ sagði talsmaður norsku lögreglunnar við norska ríkissjónvarpið NRK í dag.

Anne-Elisabeth hvarf sporlaust frá heimili sínu 31. október og er málið rannsakað sem mannrán. Eiginmaður Anne-Elisabeth er norski milljarðamæringurinn Tom Hagen sem er einn ríkasti maður Noregs. Skilaboð á bjagaðri norsku voru skilin eftir á heimili hjónanna og þar var sett fram krafa um lausnargjald.

Mikil leynd var yfir rannsókninni lengi vel en fyrir viku síðan var haldinn blaðamannafundur þar sem greint var frá málinu. Síðan þá hefur norska lögreglan fengið nærri þúsund ábendingar frá almenningi.

Auk FBI og norsku lögreglunnar koma bæði Europol og Interpol að rannsókn málsins og leitinni að Anne-Elisabeth Falkevik Hagen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×