Mikil reiði og hneykslan blossaði upp þegar greint var frá því að í það minnsta 2.500 börn hefðu verið skilin frá foreldrum sínum þegar þau komu ólöglega yfir landamærin til Bandaríkjanna síðasta sumar. Aðskilnaðurinn var tilkominn vegna nýrrar stefnu ríkisstjórnar Trump um að handtaka alla sem komu ólöglega til landsins og halda þeim á meðan niðurstaða fengist í mál þeirra fyrir dómstólum.
Í nýrri skýrslu innri endurskoðanda heilbrigðisráðuneytisins, sem bar ábyrgð á að sjá um börnin sem voru tekin af foreldrum sínum ásamt heimavarnarráðuneytinu, kemur fram að byrjað hafi verið að stía fjölskyldum í sundur með þessum hætti nokkrum mánuðum áður en stefnan var kynnt opinberlega og að mun fleiri börn hafi verið tekin af foreldrum sínum.
„Hversu mörg börn voru aðskilin til viðbótar er okkur og ráðuneytinu ókunnugt um,“ segir í skýrslunni að því er segir í frétt Politico.
Vita ekki hversu mörgum hefur verið skilað
Fyrst var byrjað að sundra fjölskyldum árið 2017 og þá í tilraunaskyni fyrir stefnuna sem Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra, kynnti formlega í maí í fyrra. Í skýrslunni segir að flest þeirra um 2.500 barna sem dómstólar skipuðu ráðuneytinu að skila til foreldra sinna í fyrra hafi verið komin aftur til þeirra innan þrjátíu daga. Ekkert sé hins vegar vitað um hversu mörgum af þeim þúsundum barna sem voru tekin af foreldrum sínum áður en stefnan var kynnt formlega hefur verið skilað.Skipulagsleysi ríkti einnig í meðhöndlun Trump-stjórnarinnar á börnunum. Þannig fylgdist hún ekki með fjölskyldum sem höfðu verið aðskildar í einum gagnagrunni heldur á sextíu mismunandi stöðum. Það telur endurskoðandinn hafa flækt sameiningu fjölskyldnanna.
Heilbrigðisráðuneytið viðurkenndi í fyrra að hafa týnt sumum börnum í fleiri mánuði. Bent er á í skýrslunni að ríkisstjórnin hafi ítrekað þurft að uppfæra tölur um hversu mörg börn hún hefði í haldi síðasta sumar. Í fyrstu sagði hún töluna 2.053 í júní en í október var formlega talan orðin 2.668.
Washington Post segir að 118 börn hafi verið skilin frá foreldrum sínum frá því í júlí og fram í byrjun nóvember í fyrra, eftir að ríkisstjórn Trump sagðist ætla að stöðva aðskilnaðarstefnu sína á landamærunum. Þá segir skýrslan að innflytjendayfirvöld hafi sagt aðalástæðuna fyrir að þau hefðu sent börn innflytjenda til umsjár heilbrigðisráðuneytisins þá að foreldrarnir væru á sakarskrá. Endurskoðandinn segir upplýsingarnar um sakarskrá foreldranna hafi verið svo óljósar að hvorki sé hægt að ráða af þeim hvort réttmætt hafi verið að skilja börnin frá foreldrunum eða að skila þeim til þeirra aftur.