Enski boltinn

Solskjær vill ekki hætta með Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Vísir/Getty
Ole Gunnar Solskjær hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína sem knattspyrnustjóri Manchester United og það hefur ekki gerst hjá félaginu í 72 ár. Nú vill Norðmaðurinn fá tækifæri til að halda áfram með liðið eftir að lánsamningurinn rennur út í vor.

Manchester United vann 2-0 útisigur á Newcastle í gærkvöldi og er því með 12 stig og 14 skoruð mörk í fyrstu fjórum leikjum Solskjær. Liðið er nú „aðeins“ sex stigum frá Meistaradeildarsæti og einum sigri frá fimmta sætinu.

Ole Gunnar Solskjær er enn stjóri norska félagsins Molde og var aðeins lánaður á Old Trafford fram á vor. Frábær byrjun kallar á pressu úr öllum áttum að Solskjær fái að halda áfram og verði ráðinn framtíðarknattspyrnustjóri félagsins.

Manchester United ætlaði að finna nýjan mann í sumar en hver veit nema að Solskjær fái tækifæri til að halda áfram með liðið.





Manchester United rak Jose Mourinho í desember og þá var þungt yfir öllu og öllum á Old Trafford en brosandi Norðmaður, sem var sjálfur goðsögn sem leikmaður hjá félaginu, hefur heldur betur komið United lestinni á fulla ferð.

Það er aftur orðið gaman að horfa á Manchester United liðið spila og leikgleði leikmanna er nú sýnileg á ný.

Solskjær var líka spurður um það á blaðamannfundi í gær hvort að hann hætti með liðið í maí.

„Ég vil ekki hætta,“ svaraði Ole Gunnar.

Sir Matt Busby vann fyrstu fjóra leiki sína sem knattspyrnustjóri Manchester United árið 1946 en síðan hafði enginn náð því fyrr en Solskjær í gærkvöldi.

„Þetta fer í sögubækurnar en ég er ekkert að hugsa um það. Ég hugsa bara um næsta leik því ef þú getur unnið fjóra í röð hjá þessu félagi þá getur þú unnið næstu fjóra leiki líka. Það er áskorunin og um leið viðmiðið og mælikvarðinn hjá þessu félagi,“ sagði Solskjær.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×