Erlent

Svikahrappar reyna að kúga fé út úr eiginmanni Anne-Elisabethar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október í fyrra.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október í fyrra. Norska lögreglan
Svindlarar hafa gert tilraunir til að kúga fé út úr Tom Hagen, eiginmanni Anne-Elisbaethar Hagen sem rænt var af heimili hjónanna í október í fyrra, og fjölskyldu þeirra. Lögregla hefur nokkrar slíkar tilraunir til rannsóknar.

Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar síðan 31. október síðastliðinn en þrisvar hefur heyrst frá meintum mannræningjum. Þeir hafa krafist lausnargjalds að andvirði rúmlega milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.

Dagbladet hefur eftir rannsóknarlögreglumanninum Tommy Brøske, sem stýrt hefur rannsókninni á hvarfi Önnu-Elisabethar, að óprúttnir aðilar hafi haft samband við Hagen-fjölskylduna og reynt að kúga út úr henni fé. Þessar fjárkúgunartilraunir séu til rannsóknar, m.a. með tilliti til þess hvort einhverjir verði ákærðir, og þá eigi nokkrar þeirra rætur að rekja til útlanda.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur lögregla þegar sett sig í samband við svikahrappa sem reynt hafa að svindla á fjölskyldunni. Brøske vildi þó ekkert gefa upp um aðgerðir lögreglu vegna málsins eða frá hvaða löndum fjárkúgunartilraunirnar berast.

Lögregla útilokar ekki að hvarf Anne-Elisabethar sé rannsakað sem morðmál. Komið hefur fram að lögreglumenn sem rannsaka hvarfið hafi fundið vísbendingar sem gefi til kynna að mannránið hafi verið þaulskipulagt. Þá benda ummerki á vettvangi til þess að Anne-Elisabeth hafi verið dregin út af baðherbergi á heimili hennar og eiginmannsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.