Erlent

Vígamenn mala gull í Afríku

Samúel Karl Ólason skrifar
Í Búrkína Fasó, Malí og Níger er áætlað að svarti markaðurinn með gull velti um tveimur milljörðum dala á ári.
Í Búrkína Fasó, Malí og Níger er áætlað að svarti markaðurinn með gull velti um tveimur milljörðum dala á ári. Vísir/Getty
Al-Qaeda, Íslamska ríkið og önnur hryðjuverkasamtök hafa að undanförnu dreift úr sér í Afríku. Sameinuðu þjóðirnar og aðrir sérfræðingar hafa sérstaklega varað við því að hryðjuverkasamtök nái stjórn á gullnámum á Sahel-svæðinu. Þannig gætu hryðjuverkasamtök náð sér í miklar tekjur til að öðlast nýja meðlimi og vopn.

Umfangsmikil rannsókn blaðamanna Reuters varpar meira ljósi á umsvifa vígahópanna á svæðinu og þá sérstaklega í Búrkína Fasó. Þar hafa hundruð dáið í árásum vígamanna. Þar á meðal 39 námuverkamenn í nýlegri árás.

Sömuleiðis hafa verið tilkynntar fjölmargar árásir og mannrán sem tengjast gullnámugreftri.

Yfirvöld þar í landi framkvæmdu í fyrra óformlega rannsókn byggða á gervihnattarmyndum sem sýndi að um 2.200 óskráðar gullnámur voru starfræktar í Búrkína Fasó. Um helmingur þeirra er í minna en 25 kílómetra fjarlægð frá stöðum þar sem vígamenn hafa gert árásir.

Í Búrkína Fasó, Malí og Níger er áætlað að svarti markaðurinn með gull velti um tveimur milljörðum dala á ári. Blaðamenn Reuters vörpuðu ljósi á það fyrr á árinu að gull þetta er að miklu leyti flutt úr landi í gegnum Mið-Austurlönd.



Sahel-svæðið svokallaða er þurrt svæði suður af Shara-eyðimörkinni.



Blaðamenn Reuters ræddu við íbúa bæjarins Pama, sem liggur við jaðar stórs verndarsvæðis. Þar hefur íbúum lengi verið meinað að stunda námugröft vegna verndarsvæðisins, þar sem dýralíf er mikið.

Um mitt síðasta ár breyttist það hins vegar þegar fjölmargir og þungvopnaðir vígamenn streymdu inn á svæðið á mótorhjólum og pallbílum. Hermenn og skógarverðir flúðu. Vígamennirnir tilkynntu íbúum svo að þeim væri frjálst að stunda námugröft með ákveðnum skilyrðum. Stundum fóru vígamennirnir fram á hlut þess gulls sem var grafið upp og stundum keyptu þeir það.

Greining Reuters sýnir að yfirráðasvæði vígamanna í Búrkína Fasó inniheldur einhverjar ríkustu gullnámur landsins, þó ómögulegt sé að staðhæfa að vígamenn stjórni þeim námum með beinum hætti.

Oumarou Idani, námuráðherra landsins, sagði í maí vígamenn hefðu tekið yfir stjórn einhverra náma. Herinn greip svo til aðgerða gegn vígamönnum og ráku þá frá svæðinu. Árásum þeirra fækkaði um tíma en fjöldi þeirra hefur nú jafnast út aftur.

William Linder, fyrrverandi starfsmaður Leyniþjónustu Bandaríkjanna í Vestur-Afríku, sem rekur nú ráðgjafaþjónustu, segir að nauðsynlegt sé að stöðva vígamenn á svæðinu. Annars muni ástandið á Sahel-svæðinu einungis versna til muna og vígamönnum vaxa ásmegin.

Ousseni Compaore, öryggisráðherra, segir ríkisstjórnir ríkja á svæðinu vera meðvitaðar um ástandið og þær vinni saman til að sporna gegn þessari þróun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×