Erlent

37 látnir eftir árás á starfs­menn kanadísks náma­fyrir­tækis í Búrkína Fasó

Atli Ísleifsson skrifar
Frá gullnámu í Búrkína Fasó. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá gullnámu í Búrkína Fasó. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Að minnsta kosti 37 eru látnir og rúmlega sextíu særðir eftir árás vígamanna á fimm rútur sem voru að flytja starfsmenn kanadísks námafyrirtækis í Afríkuríkinu Búrkína Fasó.

Árásin er sú mannskæðasta í landinu í fimm ár en hún var gerð á rútur fyrirtækisins Semafo um 40 kílómetrum frá gullnámu í Boungou í austurhluta landsins í gær. Átök hafa verið tíð milli hersins og vígasveita á síðustu árum.

Vígamennirnir réðust fyrst á herfylgd rútanna áður en byrjað var að skjóta á rúturnar og farþega þeirra. Erlendir fjölmiðlar hafa eftir talsmönnum yfirvalda í Búrkína Fasó að búist sé við að tala látinna komi til með að hækka.

Árásin er sú þriðja á starfsmenn Semafo á síðustu fimmtán mánuðum, en fyrirtækið er með starfsemi í tveimur námum í landinu.

Árásir herskárra íslamista hafa stóraukist í landinu á síðasta ári, en norðurhluta landsins hefur verið lýst sem hálfgerðu griðasvæði fyrir íslamista sem koma til landsins frá Malí.

Rúmlega 630 manns hafa látið lífið í árásum íslamista í Búkúna Fasó að undanförnu. Búrkína Fasó er eitt fátækasta ríki heims, þar sem öryggissveitir og stjórnvöld eru illa búin til að taka á ástandinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.