Erlent

37 látnir eftir árás á starfs­menn kanadísks náma­fyrir­tækis í Búrkína Fasó

Atli Ísleifsson skrifar
Frá gullnámu í Búrkína Fasó. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá gullnámu í Búrkína Fasó. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty
Að minnsta kosti 37 eru látnir og rúmlega sextíu særðir eftir árás vígamanna á fimm rútur sem voru að flytja starfsmenn kanadísks námafyrirtækis í Afríkuríkinu Búrkína Fasó.

Árásin er sú mannskæðasta í landinu í fimm ár en hún var gerð á rútur fyrirtækisins Semafo um 40 kílómetrum frá gullnámu í Boungou í austurhluta landsins í gær. Átök hafa verið tíð milli hersins og vígasveita á síðustu árum.

Vígamennirnir réðust fyrst á herfylgd rútanna áður en byrjað var að skjóta á rúturnar og farþega þeirra. Erlendir fjölmiðlar hafa eftir talsmönnum yfirvalda í Búrkína Fasó að búist sé við að tala látinna komi til með að hækka.

Árásin er sú þriðja á starfsmenn Semafo á síðustu fimmtán mánuðum, en fyrirtækið er með starfsemi í tveimur námum í landinu.

Árásir herskárra íslamista hafa stóraukist í landinu á síðasta ári, en norðurhluta landsins hefur verið lýst sem hálfgerðu griðasvæði fyrir íslamista sem koma til landsins frá Malí.

Rúmlega 630 manns hafa látið lífið í árásum íslamista í Búkúna Fasó að undanförnu. Búrkína Fasó er eitt fátækasta ríki heims, þar sem öryggissveitir og stjórnvöld eru illa búin til að taka á ástandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×