Guðjón Pétur Lýðsson er á förum frá KA og mun því ekki spila með liðinu í Pepsi Max-deildinni í sumar. Þetta herma heimildir íþróttadeildar.
Það þótti mikill hvalreki er KA tilkynnti að Guðjón Pétur hefði gengið í raðir Akureyrarfélagsins í byrjun nóvembermánaðar síðasta vetur.
Nú fimm mánuðum síðar stefnir allt í það að Guðjón muni yfirgefa félagið en innan við þrjár vikur eru í að Pepsi Max-deildin hefjist.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net mætti Guðjón Pétur ekki í æfingaleik liðsins gegn Völsungi í vikunni og hefur heldur ekki mætt á æfingar.
Guðjón Pétur er afar reynslumikill leikmaður. Hann hefur leikið 273 leiki í meistaraflokki, þar af 179 leiki í efstu deild, og skorað í þeim 59 mörk.
Uppfært: KA hefur nú staðfest að Guðjón Pétur hefur yfirgefið félagið af fjölskylduástæðum. Tilkynningu KA má lesa á vef félagsins.
