Erlent

Stefnir að því að komast yfir Atlantshaf í tunnu

Atli Ísleifsson skrifar
Tunnan sjálf er um þriggja metra löng og 2,1 metra breið.
Tunnan sjálf er um þriggja metra löng og 2,1 metra breið. Mynd/TESA
Frakkinn Jean-Jacques Savin hefur haldið af stað frá Kanaríeyjum í appelsínugulu tunnulaga hylki og stefnir hann nú að því að komast yfir Atlantshaf, einungis með aðstoð hafstrauma.

Hinn 71 árs Savin yfirgaf El Hierro á Kanaraeyjum og vonast hann til að ná til eyja Karíbahafsins á þremur mánuðum eða svo. Ferðin er um 4.500 kílómetra löng. Savin fjármagnaði verkefnið að stórum hluta með aðstoð almennings.

Í frétt BBC  segir að í hylkinu sé að finna svefnaðstöðu, eldhús og birgðageymslu. Hægt verður að fylgjast með ferðum tunnu Savin á Facebook-síðu hans, en í fyrstu færslunni eftir að lagt var úr höfn sagði hann tunnuna „haga sér vel“.

Tunnan ferðast á um um tveggja til þriggja kílómetra hraða á klukkustund og gerir veðurspá ráð fyrir hagstæðum vindum fram á sunnudag.

Tunnan sjálf er um þriggja metra löng og 2,1 metra breið. Flöturinn innan tunnunnar er um sex fermetrar. Á gólfinu er gluggi þar sem Savin, sem áður starfaði innan franska hersins, getur fylgst með ferðum sjávardýra. Tunnan á að geta þolað mikinn öldugang og árásir hvaldýra.

Aðspurður um hvar hann telur að hann muni ná landi segir hann mögulega Barbados. Hann segist þó vona að það verði einhver frönsku eyjanna – ef til vill Martinique eða Guadaloupe. Slíkt myndi auðvelda alla pappírsvinnu þegar kæmi að því að koma tunnunni aftur heim til Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×