Breiðablik vann sinn fjórða sigur í röð í Pepsi-deild kvenna er liðið vann 2-0 sigur á Grindavík. Á sama tíma vann Selfoss 1-0 sigur á KR.
Agla María Albertsdóttir kom Breiðablik yfir á 28. mínútu og Berglind Björg Þorvalsdóttir tvöfaldaði forystuna á 89. mínútu með sínu ellefta marki.
Breiðablik er á toppi deildarinnar með 30 stig eftir ellefu leiki en liðið hefur unnið tíu af ellefu leikjum sínum í sumar og er með eins stigs forskot á Þór/KA.
Grindavík er hins vegar í ögn meiri vandræðum. Stelpurnar úr Grindavík eru þremur stigum frá fallsæti og ljóst að það er hörð barátta framundan á botni og á toppi.
Eina markið í botnbaráttuslag KR og Selfoss í Vesturbænum kom úr vítaspyrnu. Magdalena Anna Reimus skoraði úr víti fyrir Selfoss á 44. mínútu og tryggði þeim 1-0 sigur.
Selfoss er komið með tólf stig og er í sjöunda sætinu. KR er í fallsæti með sex stig, þremur frá öruggu sæti.
Úrslit og markaskorar eru fengnir frá úrslit.net.
Breiðablik á toppinn og Selfoss með mikilvægan sigur
Anton Ingi Leifsson skrifar
