Ríkharð Óskar Guðnason og gestir hans í Messunni í gær tóku að þessu sinni fyrir 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og lið helgarinnar var lið Liverpool.
Gestir Rikka G að þessu sinni voru þeir Reynir Leósson og Ríkharður Daðason og fóru þeir sérstaklega yfir pressu Liverpool liðsins á móti Manchester City.
„Þeir bara vaða í þá,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason þegar hann hóf umfjöllunina um pressu Liverpool liðsins í leiknum.
„Þetta var uppleggið hjá Liverpool og þeir komu mér mjög á óvart með hversu rosalega öflugir þeir voru í þessari pressu. City-liðinu var bara brugðið,“ sagði Reynir Leósson.
„Það þarf hugrekki til að leggja upp leikinn svona en þetta hefur verið einkenni Jürgen Klopp í gegnum tíðina. Þegar Dortmund liðið hans var sem best þá var þegar þeir spiluðu svona. Þeir lögðu mikla orku í leikinn. Það sem er gaman við að horfa á Liverpool núna eru hversu mikla orku þeir leggja í leikinn og þeir eru að uppskera í samræmi við það,“ sagði Ríkharður Daðason.
Það má sjá allt innslagið um pressu og leikstíl Liverpool í sigrinum á Manchester City með því að smella á spilarann hér fyrir ofan.
