Breska ríkisútvarpið greinir frá því að maðurinn hafi fengið upp í kok af því að sitja í vélinni sem hafði flutt hann til Malaga á Spáni. Flugtaki vélarinnar frá Lundúnum hafði seinkað um eina og hálfa klukkustund og var honum því nóg boðið þegar hann þurfti að bíða í hálftíma til viðbótar inni í vélinni meðan hún stóð á spænsku flugbrautinni.
Hann ákvað því að opna neyðarútgang og koma sér makindlega fyrir á öðrum væng vélarinnar. Ekki fylgir sögunni hvað hann sat þar lengi en eftir samningaviðræður við áhöfn vélarinnar ákvað hann að halda aftur inn. Manninum, sem sagður er vera Pólverji á sextugsaldri, var síðan fylgt úr vélinni af öryggisvörðum.
Í myndbandi sem annar farþegi fangaði má sjá manninn leggja frá sér handfarangurinn áður en hann sest á vænginn. Fólki, að frátaldri áhöfninni hugsanlega, þótti uppátækið hið fyndasta og má heyra það hlæja í bakgrunninum.
Haft er eftir einum farþega vélarinnar að augnablikið sem maðurinn yfigaf vélina hafi verið „súrrealískt“ og er hann sagður hafa sagt, skömmu áður en hann opnaði neyðarútganginn: „Ég ferðast þá bara á vængnum!“ Annar farþegi telur þó að maðurinn hafi átt í erfiðleikum með andardrátt sökum astma og hafi því neyðst til að fá sér ferskt loft.
Talsmaður Ryanair segir að sama hvort það er þá líti flugfélagið málið alvarlegum augum.