BBC greinir frá þessu og vísar í framkvæmdastjóra flokksins, Ace Magashule. Zuma hefur þrálátlega neitað að láta af störfum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir samflokksmanna á síðustu vikum og mánuðum. Miðstjórn flokksins fundaði í alla nótt vegna málsins.
Hinn 75 ára Zuma hefur sjálfur samþykkt að láta af embætti, en þó ekki fyrr en að þremur til sex mánuðum liðnum.
Zuma tók við forsetaembættinu í Suður-Afríku árið 2009, en á síðustu árum hefur hvert spillingarmálið á fætur öðru tengt forsetanum komið upp.

Miðstjórn flokksins vill að varaforsetinn Cyril Ramaphosa taki við embættinu af Zuma, en Ramaphosa var kjörinn formaður flokksins í desember síðastliðinn.
Magashule sagði ákvörðun miðstjórnar vera endanlega. Hann sagði þó Zuma hafa komið þeirri skoðun sinni á framfæri að hann teldi miðstjórnina ekki hafa heimild til að leggja fram beiðni sem þessa.
Magashule sagðist jafnframt búast við að Zuma bregðist við tilmælum miðstjórnar á morgun, þó að enginn frestur hafi verið gefinn í því samhengi.
Kosningar fara fram í Suður-Afríku á næsta ári. Lög í landinu koma í veg fyrir að Zuma hefði getað boðið sig fram að nýju, en forseti má einungis sitja tvö kjörtímabil.