Formenn norska Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Venstre munu kynna nýja ríkisstjórn til sögunnar í Ósló á morgun.
Norskir fjölmiðlar hafa velt vöngum yfir ráðherraskipaninni en samsetning nýrrar ríkisstjórnar verður ólík þeirri sem fyrir var að fulltrúar Venstre munu nú taka þar sæti. Er þetta í fyrsta sinn í sautján ár sem Venstre er með ráðherra í ríkisstjórn.
Bæði Høyre og Framfaraflokkurinn munu missa einn ráðherrastól og þá verður búið til nýtt ráðherraembætti, þannig að fulltrúar Venstre munu í heildina skipa þrjá ráðherrastóla.
Samkvæmt upplýsingum TV2 mun Trine Skei Grande, formaður Venstre, verða nýr menningarmálaráðherra. Þá verður Ola Elvestuen, varaformaður Venstre, ráðherra loftslags- og umhverfismála, og Iselin Nybø, fyrrverandi þingmaður Venstre, ráðherra æðri menntunar.
Þá greinir TV2 einnig frá því að Per Willy Amundsen dómsmálaráðherra og fulltrúi Framfaraflokksins, muni líklega missa sæti sitt í ríkisstjórn. Hefur verið nefnt að innflytjendamálaráðherrann Sylvi Listhaug muni verða ráðherra innflytjenda- og dómsmála í nýrri stjórn.
Ný ríkisstjórn í Noregi kynnt til sögunnar á morgun

Tengdar fréttir

Samkomulag um nýjan stjórnarsáttmála í höfn í Noregi
Formenn Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Venstre hafa náð samkomulagi um myndun nýrrar ríkisstjórn í Noregi.