Erlent

Ný ríkisstjórn í Noregi kynnt til sögunnar á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins, Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins, og Trine Skei Grande, leiðtogi Venstre.
Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins, Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins, og Trine Skei Grande, leiðtogi Venstre. Vísir/AFP
Formenn norska Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Venstre munu kynna nýja ríkisstjórn til sögunnar í Ósló á morgun.

Norskir fjölmiðlar hafa velt vöngum yfir ráðherraskipaninni en samsetning nýrrar ríkisstjórnar verður ólík þeirri sem fyrir var að fulltrúar Venstre munu nú taka þar sæti. Er þetta í fyrsta sinn í sautján ár sem Venstre er með ráðherra í ríkisstjórn.

Bæði Høyre og Framfaraflokkurinn munu missa einn ráðherrastól og þá verður búið til nýtt ráðherraembætti, þannig að fulltrúar Venstre munu í heildina skipa þrjá ráðherrastóla.

Samkvæmt upplýsingum TV2 mun Trine Skei Grande, formaður Venstre, verða nýr menningarmálaráðherra. Þá verður Ola Elvestuen, varaformaður Venstre, ráðherra loftslags- og umhverfismála, og Iselin Nybø, fyrrverandi þingmaður Venstre, ráðherra æðri menntunar.

Þá greinir TV2  einnig frá því að Per Willy Amundsen dómsmálaráðherra og fulltrúi Framfaraflokksins, muni líklega missa sæti sitt í ríkisstjórn. Hefur verið nefnt að innflytjendamálaráðherrann Sylvi Listhaug muni verða ráðherra innflytjenda- og dómsmála í nýrri stjórn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.