Íslenski boltinn

Kwame Quee genginn í raðir Breiðabliks

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kwame Quee fagnar sigri gegn Víkingi í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í sumar.
Kwame Quee fagnar sigri gegn Víkingi í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í sumar. vísir/daníel þór
Breiðablik færði stuðningsmönnum sínum jólagjöf í dag þegar að liðið gekk frá samningi við Kwame Quee sem spilað hefur með Ólsurum undanfarin tvö tímabil. Frá þessu greina Blikar á heimasíðu sinni.

Quee spilaði með Ólafsvíkingum í Pepsi-deildinni árið 2017 og var svo einn besti leikmaður Inkasso-deildarinnar í ár þar sem að hann skoraði ellefu mörk í 21 leik. Þá átti hann stóran þátt í því að koma Ólsurum í undanúrslit bikarsins.

Quee er 22 ára gamall kantmaður sem er afar leikinn með boltann en sömuleiðis er hann eldfljótur og öflugur sóknarmaður. Hann er frá Sierra Leone og spilar nú með FC Johansen í heimalandinu og kemur þaðan til Blika.

Breiðablik, sem hafnaði í öðru sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð, eru búnir að fá til sín Þóri Guðjónsson frá Fjölni en aftur á móti er það búið að missa Gísla Eyjólfsson á láni til Mjällby í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×