Erlent

Trump-hjónin brugðu sér óvænt til Írak

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það fór vel á með forsetahjónunum og bandaríska herliðinu.
Það fór vel á með forsetahjónunum og bandaríska herliðinu. Getty/Saul Loeb

Donald Trump Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, Melania Trump, eru nú stödd í Írak meðal bandarískra hermanna sem varið hafa jólahátíðinni þar í landi. Þetta er fyrsta í sinn sem Trump heimsækir bandaríska hermenn við skyldustörf á átakasvæði.

Forsetahjónin gerðu ekki boð á undan sér en í fréttatilkynningu sem Hvíta húsið sendi síðdegis kemur fram að þau hafi komið til landsins að kvöldi jóladags. Tilgangur heimsóknarinnar sé að þakka hermönnunum fyrir vel unnin störf á síðustu misserum.

Trump hefur látið að sér kveða í varnarmálum að undanförnu og ber það skemmst að nefna ákvörðun hans um að draga Bandaríkjaher út úr átökunum í Sýrlandi. Ákvörðunin var umdeild og sást það kannski hvað best í afsögn varnarmálaráðherrans Jim Mattis. Hann ákvað að róa á önnur mið vegna „óyfirstíganlegs ágreinings“ þeirra um réttmæti ákvörðunarinnar.

Bandaríkjaforseti tók þó fram í heimsókn sinni að ekki stæði til að herinn yfirgæfi Írak í náinni framtíð. Vera Bandaríkjahers í landinu gæti komið að góðum notum, „ef við viljum gera eitthvað í Sýrlandi,“ eins og Trump orðaði það. Ýjaði hann þar að því að Bandaríkin hefðu áfram möguleikann á því að stíga inn í átökin í Sýrlandi, snúist honum hugur.

Í heimsókn sinni, sem meðal annars fór fram í herstöð flughersins í al-Asad vestan höfuðborgarinnar Baghdad, sagðist hann auk þess vera sannfærður um að fleiri myndu í fyllingu tímans átta sig á ágæti ákvörðunar sinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.