Erlent

Assange hafnar samkomulaginu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks. AP/Frank Augstein

Lögfræðingur Julian Assange hefur fyrir hönd skjólstæðings síns hafnað samkomulagi sem yfirvöld í Ekvador tilkynntu í dag að náðst hafi við yfirvöld í Bretlandi um að Assange yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna.

Lenin Moreno, forseti Ekvador, sagði í viðtali í dag að hann hefði fengið skriflegt loforð Breta um að framselja Assange ekki til neins lands þar sem hann gæti verið dæmdur til dauða. Því gæti hann yfirgefið sendiráðið þar sem hann hefur mátt dúsa undanfarin ár.

Í samtali við Daily Telegraph segir Barry Pollack, lögfræðingur Assange, að samkomulagið sé hins vegar ekki ásættanlegt, ekki væri rétt að áætla að þar sem Assange yrði ekki framseldur til lands þar sem dauðarefsing væri möguleiki gæti hann um frjálst höfuð strokið. Assange muni aldrei samþykkja samkomulag sem geti falið í sér minnsta möguleika á að hann verði framseldur til Bandaríkjanna.

Svo virðist sem að saksóknarar í Bandaríkjunum hafi opinberað vegna mistaka að ákæra gegn Assange hafi verið undirbúin. Leynd hvíli hins vegar á ákærunni þar til og þá ef hann verður handtekinn.

Í dómsskjölunum sem um ræðir stóð að ákærurnar og handtökuskipun „yrðu að vera innsiglaðar þar til Assange verður handtekinn í tengslum við ákærurnar og hann gæti þar af leiðandi ekki lengur forðast handtöku og framsal“.

Assange flúði til sendiráðsins og sótti um pólitískt hæli þar vegna þess að hann hafði verið ákærður fyrir nauðgun í Svíþjóð. Sú ákæra hefur þó verið felld niður en handtökuskipun var gefin út gagnvart Assange í Bretlandi vegna þess að hann mætti ekki fyrir dómara.


Tengdar fréttir

Segja Breta hafa lofað að framselja Assange ekki

Lenin Moreno, forseti Ekvador, sagði í viðtali í dag að hann hefði fengið skriflegt loforð Breta um að framselja Assange ekki til neins lands þar sem hann gæti verið dæmdur til dauða.

Bandaríkjamenn sagðir hafa undirbúið ákæru gegn Assange

Nafn Assange birtist í dómskjölum frá því í ágúst, sem uppgötvuðust aðeins í gær, þar sem saksóknari var að reyna að fá dómara til að innsigla dómsskjöl í máli manns sem var sakaður um kynferðisbrot gegn barni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.