Erlent

Hvatti aðra þjóðarleiðtoga til dáða á aldarafmæli stríðsloka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hvatti þjóðarleiðtoga heimsins til þess að byggja upp vonir í stað þess að ala á ótta í garð annarra þjóða í ræðu í París þar sem þess var minnst að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. BBC greinir frá.

Um 70 þjóðarleiðtogar voru samankomnir í París, þar á meðal Angela Merkel Þýskalandskanslari og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Minningarathöfn var haldinn við Sigurbogann í París þar sem þess var minnst að á þessum degi fyrir einnig öld var skrifað undir vopnahlé á milli stríðandi fylkinga í átökunum.

Haldin verður sérstök friðarráðstefna í París síðar í dag en meðal þeirra sem taka þátt í henni er Vladimir Pútín, forseti Rússlands.

Hópur mótmælenda setti svip sinn á minningarathöfnina en tveir berbrjósta mótmælendur voru handteknar er þær reyndu að komast að bílalest Trump Bandaríkjaforseta. Tilheyra þær samtökunum Femen en önnur konan komst í návígi við bílalestina áður en hún var handtekin.

Stríðið, sem kallað var Stríðið sem átti að binda endi á öll stríð, stóð yfir frá árinu 1914 til 1918. Það hófst í Evrópu á milli Miðveldanna svokölluðu, Þýskalands og Austurríki-Ungverjalands, og Bandamanna, Frakka, Breta og Rússa áður en að fleiri Evrópuþjóðir bættust í hóp stríðandi fylkinga.

Stríðið breiddist svo út um heimsbyggðina en alls er talið að 16 milljónir, þar af níu milljón hermenn og sjö milljónir almennra borgara, hafi látist í stríðinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.