Erlent

Sextán ára stúlka í tólf ára fangelsi fyrir manndráp í Noregi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin var gerð í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand.
Árásin var gerð í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand. Googlemaps
Sextán ára norsk stúlka hefur verið dæmd í tólf ára fangelsi fyrir að verða sautjána ára stúlku að bana í verslunarmiðstöð í Kristiansand í suðurhluta Noregs sumarið 2017. Hin dæmda, sem var fimmtán ára þegar árásin átti sér stað, banaði stúlkunni með hníf og auk þess sem 23 ára kona fékk lífshættulega áverka vegna hnífsstungu. TV2 greinir frá.

Árásin var að tilefnislausu en stúlkan þekkti ekki þær sem hún réðst á. Hin fimmtán ára árásarkona er norskur ríkisborgari og hafði margoft áður komið við sögu lögreglu. Hún hafði sloppið af stofnun á vegum barnaverndaryfirvalda, þar sem hún var vistuð, stuttu áður en hún réðst á konurnar tvær í verslunarmiðstöðinni.

Hún hafði áður hlotið ellefu ára fangelsisdóm í undirrétti en áfrýjaði dómnum og sagðist ekki hafa ætlað sér að drepa stúlkuna. Hún hefði viljað gera eitthvað drastískt til að fá önnur úrræði en þau sem henni hafði staðið til boða. Dómstóllinn var ósammála þessu og benti á að fjórum mínútum eftir að hún steig úr bíl við verslunarmiðstöðina hafði hún stungið stúlkuna til bana.

Sálfræðingar voru á einu máli um að hin dæmda væri sakhæf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×