Erlent

Segja eigandann hafa verið um borð í þyrlunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. Vísir/Getty
Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi knattspyrnufélagsins Leicester City, var um borð í þyrlunni sem brotlenti fyrir utan leikvang liðsins, King Power Stadium, í gærkvöldi. Þetta hefur breska fréttastofan BBC eftir aðstandanda fjölskyldu Srivaddhanaprabha.

Ekki er vitað hversu margir voru um borð í þyrlunni er hún brotlenti á níunda tímanum í gærkvöldi eftir leik Leicester og West Ham United. Samkvæmt fréttum erlendra miðla er óttast að nokkrir hafi látist í slysinu. Mikill eldur blossaði upp þegar þyrlan skall til jarðar og var fjöldi viðbragðsaðila ræstur út í kjölfar slyssins.

Fjölmargir innan knattspyrnuheimsins hafa sent leikmönnum Leicester, stjórnendum og aðdáendum liðsins samúðarkveðjur. Það sem af er morgni hefur fólk streymt að leikvanginum í Leicester og vottað virðingu sína.

Sjónarvottar segjast hafa séð Kasper Schmeichel, markmann félagsins, hlaupa í átt að þyrlunni þegar slysið varð.

Srivaddhanaprabha ferðast með þyrlu til og frá leikjum Leicester. Hann hefur það fyrir sið að fara upp í þyrluna á miðjum leikvanginum eftir þá leiki sem Leicester spilar á heimavelli. Srivaddhanaprabha keypti Leicester árið 2010 og gerðist í kjölfarið stjórnarformaður félagsins.

Srivaddhanaprabha gengur hér að þyrlu sinni á leikvanginum árið 2016.Getty/Catherine Ivill

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×