Erlent

Próflaus og undir áhrifum flæktust þau í eina umfangsmestu lögregluaðgerð Danmerkur

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan stöðvaði alla umferð til og frá Sjálandi í gær vegna leitarinnar.
Lögreglan stöðvaði alla umferð til og frá Sjálandi í gær vegna leitarinnar. Vísir/EPA
Ungur maður varð óvart miðpunktur stórrar lögregluaðgerðar á Sjálandi á föstudag eftir að lögregla leitaði Volvo bifreiðar sem hann var farþegi í.

Sjá einnig: Mögulega „óheppnustu“ glæpamenn Danmerkur 

Lögreglan í Kaupmannahöfn lýsti eftir svörtum Volvo V90 í tengslum við rannsókn á alvarlegum hótunum, en bíllinn hafði sést nærri staðnum þar sem hótanirnar áttu sér stað. Maðurinn, sem er tæplega 20 ára gamall, flúði á bílnum ásamt öðrum farþegum. 

Lögmaður drengsins segir í samtali við DR að drengurinn hafi ásamt öðrum farþegum reykt kannabis þann daginn og voru þau öll próflaus. Drengurinn hafði áður komist í kast við lögin og flúði vettvang til þess að komast hjá því að lenda í því sama aftur. 

Fólkið skildi bifreiðina eftir á milli Holbæk og Roskilde og fór drengurinn í felur þar sem hann var enn í gærkvöld. Lögregla hefur ekki enn náð að hafa hendur í hári drengsins. Ástæðuna segir lögmaðurinn vera hræðslu hans við lögreglumenn og það sé skiljanlegt þegar um er að ræða lögreglumenn með vélbyssur.

Þá segir lögmaðurinn drenginn hafa gert sér grein fyrir því að lögregla hafi leitað að bílnum en það hafi komið honum verulega á óvart að leitin hafi verið svo umfangsmikil. Hann hafi lesið frétt Berlingske Tidende um málið en áttaði sig ekki á að fréttin fjallaði um það hann sjálfan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×