Erlent

Sjálfslofi Trump um Púertó Ríkó mætt með fordæmingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hlóð ríkisstjórn sína lofi fyrir hvernig hún brást við fellibylnum Maríu sem gekk yfir Púertó Ríkó í fyrra. Tæplega 3.000 manns fórust, meðal annars vegna skorts á grunnþjónustu fyrsta hálfa árið eftir hamfarirnar.
Trump hlóð ríkisstjórn sína lofi fyrir hvernig hún brást við fellibylnum Maríu sem gekk yfir Púertó Ríkó í fyrra. Tæplega 3.000 manns fórust, meðal annars vegna skorts á grunnþjónustu fyrsta hálfa árið eftir hamfarirnar. Vísir/EPA
Þrátt fyrir að tæplega þrjú þúsund manns séu taldir hafa farist af völdum fellibylsins Maríu á Púertó Ríkó í fyrra lýsti Donalds Trump Bandaríkjaforseti viðbrögðum ríkisstjórnar sinnar við hamförunum sem „stórkostlegum“ í gær. Ummæli forsetans hafa vakið harða gagnrýni á eyjunni og víðar.Upphaflega sögðu yfirvöld að 64 hefðu farist af völdum fellibylsins Maríu sem var af stærðinni fjórir þegar hann gekk yfir Púertó Ríkó fyrir ári. Sú tala var hækkuð í 2.975 á þessu ári en þá voru taldir með þeir sem létu lífið næsta hálfa árið eftir fellibylinn vegna skorts á heilsugæslu, rafmagni og hreinu vatni. Það er um það bil sami fjöldi og dó í hryðjuverkaárásunum í New York 11. september árið 2001.Rafmagni var ekki komið aftur á alla eyjuna fyrr en í síðasta mánuði, ellefu mánuðum eftir að María stórskemmdi innviði eyjunnar sem er bandarískt yfirráðasvæði. Breska ríkisútvarpið BBC segir að áætlað sé að um 8% af íbúum eyjunnar hafi yfirgefið hana eftir fellibylinn.„Ég held reyndar að þetta hafi verið ein besta frammistaða sem hefur nokkru sinni náðst með tilliti til þess um hvað þetta snerist allt,“ sagði Trump forseti þegar fréttamaður spurði hann hvað yfirvöld hefðu lært af fellibylnum Maríu nú þegar fellibylurinn Flórens stefnir á suðausturströnd Bandaríkjanna.Lýsti forsetinn störfum Almannavarna Bandaríkjanna (FEMA) og löggæslu með ríkisstjóra Púertó Ríkó sem „stórkostlegum“.„Ég held að Púertó Ríkó hafi verið ótrúlega vel heppnað sem hlaut ekki verðskuldað lof,“ sagði forsetinn.

„Guð hjálpi okkur öllum“

Ummælin hafa vakið furðu og reiði. Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, sagði að ekki væri hægt að lýsa sambandi nýlendu og alríkisstjórnar Bandaríkjanna sem „vel heppnuðu“ þegar íbúar á eyjunni skorti ýmis óafsalanleg réttindi sem landar þeirra á meginlandi Bandaríkjanna njóta.„Ef hann heldur að dauði þrjú þúsund manns sé árangur þá hjálpi guð okkur öllum,“ tísti Carmen Yulín Cruz, borgarstjóri San Juan sem eldaði grátt silfur saman með Trump í kjölfar fellibylsins í fyrra. Lýsti hún viðbrögðum Trump-stjórnarinnar við hamförunum á Púertó Ríkó sem „dökkum bletti“ á forsetatíð hans sem strái salti í sár eyjaskeggja.

Fulltrúar demókrata fordæmdu einnig ummæli forsetans. Chuck Schumer, leiðtogi þeirra í öldungadeild Bandaríkjaþings, sagði þau „móðgandi, særandi og augljóslega röng“. Bernie Sanders, sem bauð sig fram í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar árið 2016, benti á tölu látinna á eyjunni.„Það er ekki „vel heppnað“. Það er harmleikur og hneyksli,“ tísti Sanders.

María olli miklum mannskaða og eyðileggingu á Púertó Ríkó. Innviðir eyjunnar eru enn ekki samir eftir hamfarirnar.Vísir/EPA

Sagði íbúa Púertó Ríkó vilja „fá allt upp í hendurnar“ eftir hamfarirnar

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Trump forseti hættir sér út á hála braut varðandi hamfarirnar á Púertó Ríkó. Fyrst eftir að fellibylurinn gekk yfir eyjuna og eyðileggingin var ljós tengdi forsetinn tjónið og væntanlegt uppbyggingarstarf ítrekað við erfiða fjárhagsstöðu Púertó Ríkó.Eftir að borgarstjóri San Juan gagnrýndi viðbrögð Trump við hamförunum opinberlega hellti forsetinn sér yfir hann á Twitter. Sakaði hann Yulín Cruz og aðra leiðtoga á eyjunni um að skorta forystuhæfileika þar sem þeir „gætu ekki fengið starfsmenn sína til að hjálpa“.„Þau vilja að allt sé gert fyrir þau þegar þetta ætti að vera samfélagslegt átak,“ tísti Trump meðal annars.


Tengdar fréttir

Tala látinna hækkuð úr 64 í 2.975

Ríkisstjóri Púertó Ríkó hefur hækkað opinbera tölu látinna vegna fellibylsins María sem fór þar yfir fyrir rúmu hálfu ári úr 64 í 2.975.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.