Erlent

Segir íbúa Puerto Rico vilja fá allt upp í hendurnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump er ekki sáttur við ummæli borgarstjóra San Juan.
Donald Trump er ekki sáttur við ummæli borgarstjóra San Juan. Vísir/GEtty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skammaðist yfir íbúum Puerto Rico á Twitter í dag og sagði þá vilja fá allt upp í hendurnar. Neyðarástand ríkir nú á eyjunni sem varð verulega illa úti vegna fellibylsins Maríu sem skall þar á fyrir tíu dögum. Minnst sextán eru látnir og innviði eyjunnar eru í rúst.Þá kennir Trump demókrötum um það að borgarstjóri San Juan hafi gagnrýnt Trump harðlega.„Demókratar eru búnir að segja borgarstjóra San Juan, sem hrósaði mér mjög fyrir einungis nokkrum dögum, að hún verði að vera andstyggileg við Trump. Borgarstjórinn og aðrir í Puerto Rico hafa sýnt mjög slæma stjórnunarhæfileika og hafa ekki getað fengið verkamenn þeirra til að hjálpa.Þeir vilja fá allt upp í hendurnar en þetta ætti að vera samfélagslegt átak. Tíu þúsund starfsmenn ríkisins eru nú á eyjunni að vinna frábært starf. Herinn og viðbragðsaðilar hafa, þrátt fyrir ekkert rafmagn, enga vegi, síma og fleira, unnið frábært starf. Puerto Rico gereyðilagðist.“

Þá hefur forsetinn einnig skammast yfir fjölmiðlum vegna umfjöllunar þeirra um Puerto Rico. Hann sagði þá dekkja myndina og draga úr starfsanda viðbragðsaðila. Trump sagði það ósanngjarnt.Þar að auki sagði forsetinn að hann ætlaði að ferðast til Puerto Rico í næstu viku og að vonandi gæti hann komið við á Jómfrúaeyjum.

Þúsundir íbúa Puerto Rico skortir drykkjarvatn og aðrar nauðsynjar og hafa ekki aðgang að rafmagni né fjarskiptum. Þá er búist við mikilli rigningu nú um helgina og að hún muni hægja enn frekar á því hjálparstarfi sem á sér stað.Ríkisstjórn Trump hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir viðbrögðin vegna hamfaranna í Puerto Rico. Carmen Yulín Cruz, borgarstjóri San Juan, hefur verið meðal hörðustu gagnrýnenda Trump.Sjá einnig: „Þið eruð að drepa okkur“Meðal þess sem Trump hefur verið gagnrýndur er að setja hjálparstarf í samhengi við skuldir eyjunnar og það hve ríkið virðist hafa brugðist mun betur við þegar Harvey og Irma skullu á Texas og Flórída.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.