Íslenski boltinn

Formaður dómaranefndar KSÍ: Alvarlegar ásakanir hjá Ólafi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. fréttablaðið/ernir
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var harðorður í garð dómarans á leik KA og Vals í gær og sakaði hann um að hafa viljandi sleppt því að dæma víti í leiknum.„Dómarinn er náttúrulega Stjörnumaður, hann er fæddur og uppalinn í Stjörnunni, nánast í Stjörnuheimilinu og auðvitað fór hann ekki að dæma víti fyrir okkur, það gaf augaleið,“ sagði Ólafur um Einar Inga Jóhannsson dómara eftir leikinn á Akureyri sem endaði með 3-3 jafntefli.Kristinn Jakobsson er formaður dómaranefndar KSÍ og ummæli þjálfarans fóru ekki vel í hann.„Auðvitað vísar maður svona yfirlýsingum til föðurhúsanna. Við erum allir í þessu af fagmennsku og röðum niður á leiki eftir okkar bestu getu. Við treystum Einari Inga fyllilega til þess að dæma þennan leik,“ segir Kristinn og bætir við.

Kristinn Jakobsson.fréttablaðið/anton
„Það er of langt gengið þegar menn eru farnir að saka menn um óheilindi þó svo þeir komi frá einhverju ákveðnu félagi. Ég held að Einar hafi ekki verið settur í neina óþægilega stöðu með því að dæma þennan leik. Dómarar eru alltaf að leita að áskorunum og okkar bestu menn eru alltaf til í að dæma alla leiki.“Kristinn segir það vera sorglegt að þjálfari í efstu deild sé með slíkar ásakanir í garð dómara.„Þetta eru alvarlegar ásakanir og mér þykir sérstaklega miður að það komi frá svona reyndum og góðum þjálfara eins og Óli er,“ segir Kristinn en hann býst við því að þetta mál fari lengra.„Það kæmi mér ekki á óvart að framkvæmdastjóri KSÍ skoði þessi ummæli eins og oft þegar eitthvað óeðlilegt er í gangi. Mér finnst það eðlilegt því þarna er verið að saka dómara um að dæma ekki víti af því hann sé Stjörnumaður. Það er ekki eðlilegt að við þurfum að sitja undir svona ásökunum.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.