Erlent

Obama rýfur þögnina um Trump

Andri Eysteinsson skrifar
Margir vestanhafs hafa beðið eftir því að Obama beiti sér að fullu gegn Trump.
Margir vestanhafs hafa beðið eftir því að Obama beiti sér að fullu gegn Trump. Vísir/EPA

Fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Barack Obama, kom sér loks aftur út á vettvang stjórnmálanna í dag þegar hann hélt ræðu fyrir nemendur University of Illinois-Urbana skólans í bænum Urbana í Illinois.

Obama beindi orðum sínum reglulega að núverandi forseta, Donald Trump og gagnrýndi hann og verk hans.

Ræða Obama var fyrsti liður í kosningaherferð hans með Demókrataflokknum fyrir þingkosningarnar í báðum deildum Bandaríkjaþings sem haldnar verða þriðjudaginn 6. nóvember næstkomandi.

Kosið verður um öll 435 sætin í neðri deild þingsins og 35 af hundraði sæta í öldungadeild Bandaríska þingsins. Einnig verður kosið um ríkisstjóraembætti í 39 af 50 ríkjum og einnig verður víða kosið til ríkisþinga og til sveitarstjórna.

Fyrsta stjórnmálaræða Obama í langan tíma

Lítið hefur borið á forsetanum fyrrverandi og hefur mörgum andstæðingum Trumps þótt miður að jafn vinsæll leiðtogi demókratamegin og Obama er hafi ekki staðið fyrir gagnrýni á forsetann.

New York Times greinir frá því að í ræðu sinni í Urbana hafi Obama sakað ríkisstjórn Trump um að stunda stjórnmál sem snerust um ótta og hatur. Obama sakaði Trump einnig um að koma sér í mjúkinn hjá Pútín, styðja við kynþáttahatara og gera löggæslu að pólitísku deilumáli.

Ekkert af þessu væri í anda íhaldsmanna sagði Obama fyrir framan fullt hús af fólki og hélt áfram.

„Ég vil ekki meina að andi Abraham Lincoln tali í gegnum mig en ég held, að hann hafi ekki haft þetta í huga þegar hann stóð að stofnun Repúblikanaflokksins“.

Illa staðið að stjórn Bandaríkjanna

Obama sagði einnig að fyrirsagnir síðustu daga sýndu það svart á hvítu hversu illa væri staðið að stjórn landsins.

En þar átti Obama við fyrirsagnirnar eftir að grein sem sögð er skrifuð af háttsettum manni innan Hvíta Hússins birtist á síðum New York Times. Í greininni sagði höfundurinn sem vildi ekki láta nafn síns getið, að hópur manna innan ríkisstjórnar Trump ynni markvisst að því að koma í veg fyrir að ákvarðanir forsetans verði að veruleika, því það geti valdið Bandaríkjunum miklum skaða.

Obama sagði í ræðu sinni að svona ætti lýðræðið ekki að virka. Ókjörnir fulltrúar sem styddu 90% af brjáluðum stefnum forsetans ættu ekki að segja bandarísku þjóðinni að vera róleg því þeir væru að stöðva hin 10% af stefnum Trump.

Sakaði Obama um að reyna að eigna sér heiðurinn

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, sem sjálfur var gríðarlega harður við Barack Obama á meðan forsetatíð hins síðarnefnda var svaraði fyrirrennara sínum í ræðu í bænum Fargo í Norður Dakóta í dag. Washington Post greinir frá því.

Þar sakaði hann Obama um að reyna að eigna sér heiðurinn af efnahafslegri uppsveiflu sem orðið hefur á valdatíð Trump.

Einnig sagði forsetinn að ýmsir hafi spurt hann hvað honum hafi fundist um ræðu Obama, svaraði Trump því að hann hafi byrjað að horfa en hann hafi sofnað og uppskar með svarinu hlátrasköll.

„Ræðan var góð, mjög góð til að sofa yfir“ sagði forsetinn.

Bandaríkin hafa gengið í gegnum myrkari tíma

Obama lauk ræðu sinni í Urbana með skilaboðum til þeirra sem hafa áhyggjur af stöðu Bandaríkjanna og stefnu þeirra og sagði Bandaríkin hafa gengið í gegnum myrkari tíma en þessa.

„Hver einasta kynslóð Bandaríkjamanna hefur komið okkur yfir línuna, þeir gerðu það ekki með því að sitja og bíða eftir breytingum“ sagði Obama og endaði á því að segjast trúa á nemendur University of Illinois-Urbana og sagðist ætla að vera með þeim til enda.

Spekingar vestanhafs telja því að Obama sé hættur að halda sig til hlés.

Eins og við mátti búast var mikið rætt um ræður forsetanna á Twitter og má sjá hér að neðan nokkrar valdar færslur.


Tengdar fréttir

Erfiðir dagar í Hvíta húsinu

Stjórnendur spjallþátta Bandaríkjanna eru að koma úr sumarfríi þessa dagana og virðist sem að þeir munu hafa nóg að tala um.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.