Erlent

Danskt flutningaskip freistar þess að sigla norður fyrir Rússland

Kjartan Kjartansson skrifar
Í farmi flutningaskipsins verður meðal annars frosinn fiskur og önnur kælivara. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Í farmi flutningaskipsins verður meðal annars frosinn fiskur og önnur kælivara. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Flutningaskip danska skipafélagsins Maersk ætlar að reyna að verða fyrsta flutningaskipið til að sigla um Norður-Íshafið norður fyrir Rússland. Ætlunin er að sigla frá Vladívostok í austanverðu Rússlandi og vestur til Sankti Pétursborgar.

Venta Maersk á að flytja 3.600 flutningagáma og vonast stjórnendur félagsins til þess að það komist á áfangastað í seinni hluta september, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Gangi allt að óskum myndi það stytta siglingartímann um fjórtán daga. Skipið myndi annars þurfa að sigla suður fyrir Evrasíu og í gegnum Súesskurðinn í Egyptalandi.

Tilgangur siglingarinnar er í og með að safna upplýsingum um norðurleiðina og hvort að hop hafíssins á norðurskautinu geri siglingar á norðurslóðum raunhæfar. Fram að þessu hafa skip aðeins getað siglt þar um í fylgd kjarnorkuknúinna ísbrjóta.

„Eins og er sjáum við ekki Norður-Íshafsleiðina sem efnahagslegan valkost við núverandi kerfi okkar sem stjórnast af kröfum viðskiptavina okkar, viðskiptamynstri og þéttbýlismiðstöðvum,“ segir skipafélagið.

Hafísinn á norðurskautinu hefur hopað mikið undanfarin ár og áratuga. Samkvæmt tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna var útbreiðsla hafsíssins þar 13,2% minni í júlí en meðaltal áranna 1981-2010. Það er níunda minnsta útbreiðslan á þessum árstíma frá upphafi gervihnattamælinga árið 1979.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.