Íslenski boltinn

Kvöldið þegar danskur bakvörður kom Valsmönnum til bjargar í Garðabænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Albech fagnar sigurmarki sínu.
Andreas Albech fagnar sigurmarki sínu. Mynd/S2 Sport
Stjarnan og Valur hafa spilað margra flotta fótboltaleiki á síðustu árum og einn sá eftirminnilegri er frá 11. september 2016.

Liðin mætast í Garðabænum í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liða Pepsi-deildar karla og hálfgerðum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn 2018.  Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hörður Magnússon og félagar í Pepsimörkunum verða með upphitun fyrir leik og gera hann síðan upp eftir hann.

Á svipuðum tíma fyrir tveimur árum mættust liðin á sama stað en þá í 18. umferðinni. Leikurinn í kvöld er frestaður leikur frá því úr 15. umferð.

Hetja Valsmanna í leik liðanna fyrir 717 dögum var danski bakvörðurinn Andreas Albech.

Andreas Albech lék bara fjórtán leiki í deild og bikar á Íslandi og skoraði bara tvö mörk í þeim. Bæði mörkin hans komu hins vegar á síðustu ellefu mínútunum í leik Stjörnunnar og Vals 11. september 2016.

Stjörnumenn höfðu komist í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum Ævars Inga Jóhannessonar og Hilmars Árna Halldórssonar en Sigurður Egill Lárusson minnkaði muninn rétt fyrir hálfleik.

Þannig var líka staðan þegar að Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, fékk að líta rauða spjaldið á 75. mínútu. Fjórum mínútum síðar hófust hetjudáðir danska bakvarðarins.

Andreas Albech jafnaði metin á 79. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Andra Adolphssonar og skoraði síðan sigurmarkið á fimmtu mínútu í uppbótartíma eftir veggspil við landa sinn Rolf Glavind Toft.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum eftirminnilega leik.

Mynd/S2 Sport
Mynd/S2 Sport
Mynd/S2 Sport

Tengdar fréttir

Hafa alltaf unnið í Garðabænum síðan Ólafur tók við

Tvö efstu lið Pepsi-deildar karla, Stjarnan og Valur, mætast á Samsung-vellinum í kvöld. Valsmenn eru með þriggja stiga forskot á Stjörnumenn og stíga stórt skref í áttina að því að verja Íslandsmeistaratitilinn með sigri í kvöld. Vinni Garðbæingar tylla þeir sér hins vegar á topp deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×