Erlent

Nýsjálendingar banna plastpoka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. vísir/getty
Einnota plastpokar verða bannaðir á Nýja-Sjálandi. Frá þessu greindi forsætisráðherra landsins, Jacinda Ardern, sem segir að nýsjálenskar verslanir fái hálft ár til að aðlagast banninu. Hafi þær ekki losað sig við plastpokana að sex mánuðum liðnum eiga þær yfir höfði sér háar sektir.

Ardern segir að bannið sé tilkomið vegna umhverfissjónarmiða. Það styðji jafnframt við „hreina og græna“ ímynd Nýja-Sjálands. Hundruð milljóna plastpoka safnist upp í og við eyjarnar á hverju ári, sem valdi náttúrunni óafturkræfum skaða.

Forsætisráðherrann áætlar að ákvörðunin njóti stuðnings nýsjálensku þjóðarinnar en 65.000 manns rituðu nafn sitt við undirskriftarlista þar sem kallað var eftir plastpokabanninu. Það beri jafnframt reglulega á góma í bréfum sem Ardern segist fá frá nýsjálenskum grunnskólabörnum.

Að meðaltali notar hver einn og einasti Nýsjálendingar um 154 einnota plastpoka á ári. Það gerir samtals um 750 milljónir plastpoka árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×